Læknir frá borginni Mazyr í suðurhluta Hvíta-Rússlands, sem flúði til Litáen með fjölskyldu sinni í upphafi sumars, segir að hvítrússneskum læknum í grennd við landamæri Úkraínu hafi verið gert að taka á móti miklum fjölda rússneskra hermanna á fyrstu dögum innrásar rússneska hersins í nágrannalandið í suðri.
Í viðtali við CNN segir læknirinn, sem kallaður er Andrei í umfjöllun bandaríska fjölmiðilsins til að vernda auðkenni hans, að á borgarspítalanum í Mazyr hafi læknum verið sagt að hafa 250 sjúkrarúm laus undir rússneska hermenn við upphaf innrásarinnar, fresta skipulögðum skurðaðgerðum og útskrifa hvítrússneska sjúklinga ef kostur væri.
Hvítrússneski læknirinn segir að holskefla særðra hermanna hafi komið inn á fyrstu dögum innrásarinnar, og að á milli 40 og 50 rússneskir hermenn farið inn og út af spítalanum á degi hverjum í upphafi marsmánaðar „eins og á færibandi“. Þangað hafi rússneskir hermenn einnig reynt að koma með látna félaga sína. „Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við þá.“
Hótað eftirliti FSB
Læknum á spítalanum í Mazyr, sem samkvæmt umfjöllun CNN var einn að minnsta kosti þriggja spítala í Gomel-héraði í suðurhluta landsins sem falið var að taka á móti særðum Rússum á fyrstu mánuðum innrásarinnar, var að sögn læknisins gert að skrifa undir þagnarskyldusamninga varðandi þjónustuna sem þeir veittu rússneska herliðinu.
Þeim var stranglega bannað að deila myndum og gögnum og hótað með því að rússneska leyniþjónustan FSB væri með læknaliðið undir eftirliti og gæti fylgst með símum þeirra.
Þrátt fyrir þetta ákvað hvítrússneski læknirinn að taka rafræn afrit af röntgenmyndum rússneskra hermanna, sem hann tók með sér á USB-kubbi sem hann faldi í leikfangi dóttur sinnar á flótta fjölskyldunnar til Litáen.
Það gerði hann til þess að hafa sönnunargögn um þau verk sem hvítrússneskum læknum var falið að sinna í þágu rússneska hersins í upphafi stríðsins, sem lítið hefur heyrst af til þessa þrátt fyrir að Aleksandr Lukashenko forseti landsins hafi viðurkennt strax í byrjun innrásarinnar að særðir rússneskir hermenn hefðu verið fluttir á spítala í suðurhluta landsins.
Óttaðist að verða sendur á vígvöllinn
Andrei var handtekinn í lok mars, ásamt fleiri þarlendum læknum og sakaður um spillingu og mútuþægni. Það segir hann upplognar sakir, til þess fallnar að ógna læknunum og sýna þeim hvað gæti beðið þeirra ef þeir reyndu að fara úr landi.
Hann var vistaður í fangelsi í höfuðborginni Minsk í einn og hálfan mánuð og ákvað í kjölfarið, eftir að hafa verið beðinn um að skrá sig í hvítrússneska herinn, að kominn væri tími á að flýja heimalandið – enda byrjaður að óttast að stuðningur hvítrússneskra yfirvalda við stríð Pútíns í Úkraínu myndi á endanum leiða til þess að hvítrússneskir læknar eins og hann yrðu sendir á vígvöllinn til að hjúkra rússneska innrásarliðinu.
Samkvæmt því sem kemur fram í umfjöllun CNN er talið að mun fleiri rússneskir hermenn hafi verið fluttir særðir eða látnir til Hvíta-Rússlands í upphafi innrásarinnar í Úkraínu en stjórnvöld þar hafa viljað meina.