Farþegaþota Malaysia Airlines fórst í dag er hún flaug yfir átakasvæðið í austurhluta Úkraínu klukkan 14:15. Flug MH17 tók á loft þremur klukkustundum áður frá Amsterdam, en farþegaþotan var á leið til Kúala Lúmpur. Bandarískir embættismenn hafa staðfest við CNN og Wall Street Journal að þotan hafi verið skotin niður með loftskeyti. Enn er óvíst hver ber ábyrgð á verknaðinum en stjórnvöld í Úkraínu og uppreisnarmenn í austurhluta landsins hafa neitað sök.
CNN greindi frá því í kvöld að bandaríska leyniþjónustan hafi fundið hitamerki á gervihnattamyndum sem benda til „stórvægilegs atburðar“ og að gögn þeirra bendi til þess að flugskeytinu hafi verið skotið af jörðu niðri en ekki úr lofti (frá herþotu) eins og fjölmiðlar höfðu leitt líkur að.
Malaysia Airlines hefur staðfest að 283 farþegar hafi verið um borð auk 15 manna áhafnar. Allir eru taldir af. Flugfélagið birti í kvöld hluta farþegalistans og staðfestu að um borð hafi verið 154 Hollendingar, 27 Ástralar, 23 Malasíubúar, 11 Indónesíubúar, sex Bretar, fjórir Þjóðverjar, fjórir Belgar, þrír frá Filipseyjum og einn frá Kanada. Auk þeirra voru farþegar af öðrum þjóðernum. Flugfélagið vinnur nú að því að staðfesta þjóðerni hinna farþeganna. Utanríkisráðuneytið á Íslandi vann að því í dag að komast að því hvort nokkur Íslendingur hafi verið um borð.
Uppreisnarmenn í Úkraínu hafa undanfarnar vikur fengið mikið af nýjum og þróðum vopnum frá Rússum til þess að mæta harðari sókn Úkraínuhers á vígi uppreisnarinnar í stærstu borgum austurhluta landsins. Fréttaskýrendur telja líklegt að flugskeytinu hafi verið skotið með SA-11 Gadfly, færanlegum skotpalli sem smíðaður er í Rússlandi. Slíkt kerfi styðst við radar til að greina skotmark sitt. Gadfly-skotpallurinn getur grandað skotmarki í um 22.000 metra hæð, rúmlega tvöfaldri þeirri hæð sem þotan var í áður en samband við hana rofnaði.
Malaysian Airlines flight #MH17 reported to have been shot down by BUK-M1 [aka SA-11] surface-to-air missile system pic.twitter.com/UWwFifWhZr— NATOSource (@NATOSource) July 17, 2014
Anton Herashchenko, innanríkisráðherra Úkraínu, hefur sakað Rússa um að hafa látið uppreisnarmönnum slíkt vopn í té. Alexander Borodai, leiðtogi uppreisnarmanna, sakaði síðar Úkraínustjórn um að hafa grandað farþegaþotunni í viðtali við rússneska ríkissjónvarpsstöð.
Flugfélög í Evrópu og Bandaríkjunum hafa stýrt flugleiðum sínum frá Úkraínu og fljúga ekki um lofthelgi landsins að svo stöddu. Lofthelginni yfir svæðum uppreisnarmanna hefur jafnframt verið lokað.
Kort NYT af flugleið #MH17 yfir átakasvæði í A-Úkraínu. Vitni segja vélina hafa sprungið á flugi & tætas í hrapinu. pic.twitter.com/k3jawRpJhF
— Kjarninn (@Kjarninn) July 17, 2014
Staðan erfið fyrir Pútin
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, sendi frá sér yfirlýsingu undir kvöld þar sem hann sakar stjórnvöld í Úkraínu um verknaðinn. „Án alls vafa, bera stjórnvöld í Úkraínu ábyrgð á þessum hryllilega harmleik,“ segir hann. „Harmleikurinn hefði aldrei átt sér stað ef friður ríkti í þessu landi, og allra síst ef stjórnvöld í Kænugarði hefðu ekki hafið stórsókn sína á ný í suð-austurhluta Úkraínu.“
"Rússneski herinn mun veita alla þá hjálp sem hann getur veitt í rannsókn þessa glæps," sagði Pútín jafnframt. Þá bætti hann við að enginn hafi rétt á því að draga ályktanir án þess að styðjast við ítarlegar og hlutlægar upplýsingar um atburðinn.
Fréttaskýrandi veftímaritsins Quartz segir stöðu Pútíns eftir árásina á flug MH17 vera erfiða. Hann hefur, síðan borgarstyrjöldin braust út í Úkraínu, staðið þétt við bakið á uppreisnarmönnum og þeim ráðamönnum sem rutt var úr vegi í byltingunni á Sjálfstæðistorgi í Kænugarði í vetur. Komi í ljós að það hafi verið uppreisnarmenn sem skutu farþegaþotuna niður verður að öllum líkindum þrengt enn frekar að rússneskum viðskiptum og helstu bandamönnum forsetans í Kreml.
Haldi Pútín áfram að standa jafn þétt við bakið á uppreisninni setur forsetinn sig í þrönga stöðu í diplómatískum samskiptum við Vesturlönd. Á dögunum kynnti Barack Obama, Bandaríkjaforseti, enn harðari og nákvæmari viðskiptaþvinganir gegn stærstu fyrirtækjum og auðjöfrum Rússlands. Þvinganirnar hafa ekki verið eins umfangsmiklar af hálfu Vesturlanda síðan í Kaldastríðinu.
Í skýringu Quartz er rætt við Kenneth Yalowitz, bandarískan diplómata á eftirlaunum sem sinnti áður erindum í Sovétríkjunum. Hann telur fullvíst að ef færðar eru sönnur á að uppreisnarmönnum sé um að kenna, muni það örugglega sannfæra þau Evrópusambandsríki, sem hingað til hafa ekki talið ríka ástæðu til að beita efnahagsþvingunum, um að slíkt sé ekki lengur vafamál. „Möguleiki Rússa á að hvítþvo sig af beinum stuðningi við uppreisnina yrði að engu og það mundi gera stöðu Pútins í alþjóðasamfélaginu enn erfiðari en nú er.“
Undir þetta tekur Julian Borger, fréttaskýrandi breska blaðsins The Guardian. „Atburðarásin gæti orðið þannig að rannsóknin leiði í ljós að uppreisnarmenn hafi grandað þotunni með rússneskum vopnum. Sá sannleikur mundi neyða rússnesk stjórnvöld til að stíga til baka úr mjög áhættusömum íhlutunum sínum í átökunum.“
Leiðtogar vilja ítarlega rannsókn
Brak farþegaþotunnar lenti á sólblómaakri innan svæðis sem uppreisnarmenn stjórna, skammt frá stórborginni Donetsk. Uppreisnarmenn stjórna því svæðinu og hefur mikið lið þeirra þegar komið sér fyrir umhverfis brakið og lík farþeganna. Talið er að uppreisnarmennirnir hafi þegar fundið flugrita þotunnar.
Helstu leiðtogar heims hafa komið fram skýlausri kröfu um að alþjóðlegum sérfræðingum verði veittur aðgangur að svæðinu til þess að óháð rannsókn geti farið fram. Ban ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir stofnunina ætla að beita sér fyrir því að rannsóknin verði gegnsæ. Bretar hafa kallað eftir því að sérfræðingar Sameinuðu þjóðirnna fari fyrir rannsókninni.
Najib Razak, forætisráðherra Malasíu, segir Asíuríkið vilja taka þátt í rannsókninni og senda sérstakt teymi til Kænugarðs. Razak ræddi við Petró Porosjenko forseta Úkraínu í dag og segir þá hafa sammælst um að stjórnvöld í Úkraínu semji um „mannúðlegan þröskuld“ við uppreisnarmenn. „Hafi þotunni sannarlega verið grandað, förum við fram á að þeir sem beri sök á hryðjuverkinu verði sóttir til saka,“ sagði Razak í yfirlýsingu sinni.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á neyðarfundi á föstudag til að ræða stöðuna í Úkraínu. Öryggisráðið hefur þegar haldið fjölmarga fundi um ástandið í Úkraínu en aldrei samþykkt formlegar aðgerðir vegna andstöðu Rússa í ráðinu.
Nákvæm staðsetning braks vélarinnar
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Malasíu er þetta nákvæm staðsetning öryggismerkis vélarinnar.
Uppfært klukkan 00:02, 18. júlí 2014:
Staðfestur fjöldi farþega í flugi MH17 breytt úr 282 í 283 auk 15 manna áhafnar.