Nú eru liðnir rúmir sex sólarhringar frá því að Ever Given, eitt stærsta flutningaskip veraldar, festist í bakka Súes-skipaskurðarins í Egyptalandi. Skömmu eftir hádegi í dag sigldi það á brott af strandstað.
Í nótt, á sjötta tímanum að egypskum tíma, náðist smá árangur. Skipið flaut að hluta og réttist við í skurðinum.
„Góðu fréttirnar eru þær að skuturinn er laus en við horfðum nú á það sem einfaldasta hluta verksins,“ sagði forstjórinn, Peter Berdowski, í samtali við hollensku útvarpsstöðina NPO Radio 1. Vísað var til orða hans í umfjöllun breska blaðsins Guardian, sem fylgist með framvindunni í Súes-skurði eins og aðrir helstu fjölmiðlar heims.
BREAKING: the ship is really moving now and horns are blaring in what sounds like celebration.
— Raf Sanchez (@rafsanchez) March 29, 2021
The stern has swung away from us and it looks like it’s really facing the right way now after hours of being jackknifed across the channel. pic.twitter.com/gTuvqWO5ta
Enda um sannkallaðan heimsviðburð að ræða. Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði lítið eitt í morgun eftir að fregnir bárust af því að árangur hefði náðst í því að losa skipið og draga það til hliðar.
Í hádeginu í dag sagði Reuters þó frá því að skipið hefði flotið til baka í fyrri stöðu, þvert á skipaskurðinn, en töluverður vindur er nú á svæðinu. Það strandaði þó ekki á ný.
Og nú er það komið af stað, áleiðis norður skipaskurðinn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Fleiri en 400 skip hafa beðið eftir því að komast leiðar sinnar um skipaskurðinn, en ýmis skipafélög höfðu reyndar ákveðið að bíða ekki og vona heldur leggja þess í stað á sig 9.000 kílómetrum lengra ferðalag suður fyrir syðsta horn Afríku á leið sinni á milli Asíu og Evrópu. Að fara þá leið er sagt bæta á bilinu sjö til tíu dögum við siglingatímann.
Forseti fagnar
Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, sem hafði verið þögull sem gröfin um skipstrandið í skurðinum til þessa, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem sagði að Egyptaland væri búið að leysa vandann og lofaði því að senn myndi umferð um Súes-skurðinn færast í samt horf. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér.
Súes-skurðurinn er mikilvæg uppspretta erlends gjaldeyris fyrir Egyptaland. Talið er að stíflan í skurðinum hafi kostað rekstur hans 14-15 milljónir bandaríkjadala, rúma tvo milljarða króna, á degi hverjum.
Gluggi sem þurfti að nýtast
Í umfjöllun bandarísku AP-fréttastofunnar í morgun var rakið að um þessar mundir væru aðstæður til björgunaraðgerða eins góðar og unnt er – fullt tungl þýði að sjávarstaðan sé há, en færi síðan lækkandi í vikunni.
Óttast var að grípa þyrfti til þess ráðs að fjarlægja farm frá borði til þess að létta þetta risastóra skip og gera það ögn meðfærilegra. Það hefði hins vegar orðið flókið verkefni og til þess þyrfti sérhæfðan búnað sem ekki er til í Egyptalandi.
Sem betur fer þurfti ekki á því að halda.
Uppfært: Skömmu eftir að fréttin fór í loftið um kl. 13 bárust fréttir af því að skipið væri laust frá bakkanum og sigldi fyrir eigin vélarafli um skurðinn. Fyrirsögn fréttarinnar hefur því verið breytt og hún endurskrifuð.