Um klukkan 7:00 að morgni sunnudagsins 26. september bárust lokatölur kosninga í Norðvesturkjördæmi og fór yfirkjörstjórn heim stuttu seinna. Rétt eftir hádegi var talningarfólk boðað til endurtalningar á ný. Í millitíðinni á milli klukkan 7:30 og 11:46 gekk fólk inn og út úr salnum í Hótel Borgarnesi þar sem kjörgögnin voru geymd, samkvæmt heimildum Kjarnans, óinnsigluð eins og ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum. Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar sagðist eftir á vita að enginn hefði farið inn í salinn á þessum tíma.
Samkvæmt heimildum Kjarnans má sjá á öryggismyndavélum, sem vakta tvo innganga inn í salinn, hótelstarfsfólk ganga inn og út frá klukkan 7:30 til 11:46 á sunnudagsmorgninum. Starfsfólk hótelsins tók jafnframt myndir af salnum klukkan 8 og 9.
Þriðji inngangurinn er brunaútgangur og beinist engin myndavél að honum. Þó beinist myndavél að porti fyrir utan innganginn og eru litlar líkur á því að nokkur komist inn í salinn þaðan án þess að það sjáist á upptöku. Þessi salur var opinn um nóttina til að lofta út á meðan talningu stóð. Ekki er ljóst hvort honum hafi verið læst klukkan 7:14 eða 8:15, samkvæmt heimildum Kjarnans. Engin upptaka sýnir kjörgögnin sjálf.
Enginn óskaði eftir endurtalningunni
Mikið fjaðrafok hefur verið vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi en sérstök undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis rannsakar nú málið.
Forsagan er sú að talningarfólk var boðað rétt eftir hádegi til endurtalningar allra atkvæða í kjördæminu eftir að yfirkjörstjórnirnar í kjördæmunum sex höfðu sent frá sér „lokatölur“ um morguninn 26. september. Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar sagði ástæðuna vera lítinn mun á atkvæðamagni „sem gæti þýtt tilfærslu á jöfnunarþingsætum, og þá jafnvel víðar en í þessu kjördæmi“. Enginn óskaði eftir endurtalningunni og sagði Ingi að hún hefði verið ákvörðun yfirkjörstjórnar.
Endurtalningin leiddi í ljós misræmi í talningu sem þýddi hræringar á jöfnunarmönnum þingflokka þótt þingstyrkur hvers flokks héldi sér. Á sunnudagskvöldinu gagnrýndi fólk það hvernig staðið hefði verið að endurtalningunni og bent var á aðra meinta ágalla á framkvæmdinni, til að mynda að kjörkassar hefðu ekki verið innsiglaðir.
Útilokaði að einhver hefði farið inn í salinn
Sama kvöld sagði Ingi að atkvæðin hefðu verið geymd inn í salnum þar sem talningin fór fram. „Salurinn er þá læstur og það eru öryggismyndavélar í honum. Þetta er bara hefðbundið og hefur verið gert eins síðan ég tók þetta embætti að mér,“ sagði hann við fjölmiðla. Hann útilokaði að einhver hefði getað komið inn í salinn meðan yfirkjörstjórnin brá sér frá. „Við vitum það alveg að það fór enginn inn í salinn þann stutta tíma sem við vikum frá,“ sagði hann.
„Ég hef engar áhyggjur af geymslunni á þessum gögnum. Það er algjörlega 100 prósent og meira en það að það fór enginn inn svæðið þennan stutta tíma sem að enginn úr yfirkjörstjórn var þarna staddur,“ sagði Ingi við fréttamann RÚV þetta sama kvöld.
Fram kom í greinargerð Inga til landskjörstjórnar að þegar hlé var gert á sunnudagsmorgun hefðu kjörgögn verið varðveitt í sal á Hótel Borgarnesi þar sem talningin fór fram og að honum hefði verið læst. Ekki kom fram hver var með lykla að salnum.
Stundin greindi frá því þann 28. september að myndir hefðu birst á Instagram af óinnsigluðum atkvæðum sem stóðu í téðum sal. Myndirnar voru teknar eftir að talningu atkvæða var lokið um morguninn, af konu sem birti þær á Instagram-reikningi sínum en eyddi þeim síðar þaðan. Ingi sagðist í samtali við Stundina ekki vita hver konan væri eða hvort hún hefði unnið að talningu atkvæða. „Ég þekki ekki þetta nafn,“ sagði hann. Án þess að vita það fyrir víst, sagði hann að hún hefði vel getað tekið myndina eftir að aðrir starfsmenn yfirgáfu salinn þegar talningu var lokið. Heimilt væri að taka myndir af salnum eftir að talningu lýkur. „Það má alveg taka myndir því það er verið að streyma frá talningu atkvæða,“ sagði hann.
Vettvangsferð í Borgarnes
Undirbúningskjörbréfanefnd rannsakar nú málið, eins og áður segir, en allir flokkar á Alþingi hafa skipað fulltrúa sína í nefndina. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í undirbúningskjörbréfanefnd, skrifar um rannsóknina í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar greinir hann frá því að í gær hafi nefndin farið í vettvangsferð í Borgarnes til þess að kanna aðstæður, skoða kjörgögn og fá að tala við þau sem báru ábyrgð á talningu atkvæða á kosninganótt. „Gærdagurinn var einn mikilvægasti dagurinn í rannsókn nefndarinnar en ítarlega hafði verið unnið að undirbúningi dagsins,“ skrifar hann.
Hann segir að álitaefnin séu fjölmörg. „Eitt af atriðunum sem varð til dæmis augljóst eftir ferðina í gær var að myndavélar vakta alla innganga í salinn sem geymdi kjörgögnin. Það ætti að þýða að það sé að minnsta kosti skýrt að við vitum hverjir fóru inn í salinn og hvenær það gerðist. Aftur á móti sýna myndbandsupptökur ekki hvað þau sem fóru inn í salinn með kjörgögnunum tóku sér fyrir hendur í salnum – og því ýmsum spurningum enn ósvarað.“
Töldu ónotaða seðla
Björn Leví segir enn fremur að í gær hafi verið taldir ónotaðir atkvæðaseðlar en allir kjörstaðir fá fleiri atkvæðaseðla en þau þurfa. „Það vill enginn að atkvæðaseðlarnir á kjörstað klárist óvart af því að fleiri mættu til að kjósa en búist var við. Ónotaðir atkvæðaseðlar eru svo sendir til baka með greiddum atkvæðum, sérstaklega innsiglaðir og taldir. Á talningarstað er svo einnig gengið úr skugga um að fjöldi atkvæða, notaðra og ónotaðra seðla, stemmi.
Það þurfti að telja ónotaða seðla af því að til þess að komast að því hvað gerðist á kosninganótt þá þurfum við að hugsa um hvernig mögulega væri hægt að breyta niðurstöðum. Af því að kjörgögn voru óinnsigluð í talningarsalnum yfir nóttina þá hefði verið hægt að breyta niðurstöðum með því að henda einhverjum notuðum seðlum og búa til ný atkvæði úr ónotuðum,“ skrifar þingmaðurinn.
Mun að endingu snúast um traust
Björn Leví bendir á að með því að telja þessa seðla útiloki þau að minnsta kosti þann möguleika. Eftir standi þó að fjölmargar aðrar leiðir séu til að spilla kjörgögnum, og sé það verkefni nefndarinnar að rannsaka hvort eitthvað slíkt kunni að hafa verið raunin.
„En þá eru eftir stórar spurningar sem nefndin þarf að taka afstöðu til. Meðal þeirra er spurningin um hvort yfirhöfuð sé hægt að byggja á kjörgögnum úr Norðvesturkjördæmi. Þetta er því margþættur vandi sem við stöndum frammi fyrir. Hvort það tekst að útiloka öll vafaatriðin er óljóst eins og er en nefndin hefur hingað til reynt að gera hvað sem í hennar valdi stendur til þess að komast til botns í þessu máli. Gloppurnar eru margar og óvíst hverjar af þeim verður hægt að stoppa upp í. Kannski ekki allar. Hvað þá? Líklega mun málið að lokum snúast um traust. Traust á stjórnmálum,“ skrifar hann að lokum.