Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir það vera nokkuð ljóst að Vinstri græn og Framsóknarflokkur, sem hafi keyrt kosningabaráttu sína á áþekkum málum og Samfylkingin, ættu að íhuga það alvarlega í hvers konar ríkisstjórn þeir eru líklegastir að ná árangri með þau mál sem flokkarnir segjast brenna fyrir. „Ég tel það nokkuð ljóst að þau nái fram fleirum af sínum hjartans málum í öðru samstarfi en nú er á teikniborðinu.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Logi birti í gær.
Nú eru sagðar fréttir af því að ríkisstjórn gæti verið í burðarliðnum, en að gert sé ráð fyrir að...
Posted by Logi Einarsson on Monday, October 4, 2021
Þar segir Logi að nú væru sagðar fréttir af því að ríkisstjórn gæti verið í burðarliðnum, en að gert sé ráð fyrir að ríkisstjórnarmyndunarviðræður taki nokkrar vikur. „Væntanlega stafar það af því að himinn og haf skilur flokkana að í veigamiklum málum.“
Ljóst sé að mati Loga að fleiri mynstur séu í stöðunni en áframhaldandi samstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og vísar þar í orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í Silfrinu um helgina um að sá flokkur sé tilbúinn að styðja minnihlutastjórn Framsóknar, Vinstri-grænna og Samfylkingar. Hann segir vel mögulegt að styrkja þá hugmynd enn frekar með aðkomu fleiri flokka. „Meðal þeirra eru verkefnin sem að ég tel mikilvægustu verkefnið framundan; Að auka jöfnuð í samfélaginu, styrkja opinbera heilbrigðisþjónustu ásamt því að blása til djarfrar sóknar í loftslagsmálum.“
Reynt að setja aðra hugmynd á borðið
Samanlagt eru Framsóknarflokkur, Vinstri græn og Samfylkingin með 27 þingmenn en ef sex þingmenn Pírata bætast við þá yrðu 33 þingmenn á bakvið slíka ríkisstjórn gegn 30 sem myndu standa gegn henni. Heimildir Kjarnans herma að þessi hugmynd hafi verið rædd umtalsvert innan Samfylkingar og Pírata sem sá valkostur sem Framsóknarflokki og Vinstri grænum standi til boða kjósi flokkarnir ekki að endurnýja stjórnarsamstarfið.
Innan bæði Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur verið fyrirvari á stjórnarsamstarfi við Pírata af ýmsum ástæðum og með þessari lausn er hægt að komast framhjá því skilyrði Pírata að þátttaka í ríkisstjórnarsamstarfi velti á því að ný stjórnarskrá verði innleidd á næsta kjörtímabili.
Með 33 þingmenn á bakvið minnihlutastjórn
Framsókn, Vinstri græn, Samfylking og Píratar, ræddu saman um myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar 2017. Þá höfðu flokkarnir saman 32 þingmenn en hafa nú, líkt og áður sagði, 33 þingmenn á bakvið sig.
Árið 2017 sleit Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, viðræðunum eftir að hann taldi meirihlutann of tæpan.
Fátt bendir til annars sem stendur en að sitjandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks endurnýi samstarf sitt. Óformlegar viðræður um helstu málefnaáherslur, helstu deilumál og verkaskiptingu hafa staðið yfir frá því í byrjun liðinnar viku. Heimildir Kjarnans herma að til skoðunar sé að fjölga ráðuneytum og færa málefni á milli þeirra. Þar er helst horft til þess að búa til nýtt innviðaráðuneyti með því að færa meðal annars húsnæðismál inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og að skipta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu upp í tvennt á ný.
Framsókn sækist eftir frekari áhrifum
Gengið er út frá því í viðræðunum að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra.
Sigurður Ingi sækist samkvæmt heimildum Kjarnans eftir því að fá fjármálaráðuneytið á grundvelli aukins styrks Framsóknarflokksins eftir kosningar, en þingmönnum flokksins fjölgaði um fimm og eru nú 13, eða þremur færri en sá fjöldi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það þykir næst valdamesta ráðuneytið og þaðan er hægt að stýra fjármagni í þau stóru verkefni sem Framsóknarflokkurinn lofaði að ráðast í í aðdraganda kosninganna, til að mynda kerfisbreytinga í framfærslukerfum eldri borgara og öryrkja.
Viðmælendur Kjarnans hafa sagt að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sé ekki afhuga þessari niðurstöðu fái Sjálfstæðisflokkurinn fleiri ráðuneyti í sinn hlut í staðinn. Sjálfur myndi hann þá sennilegast setjast í stól utanríkisráðherra. Ef Sjálfstæðisflokkurinn heldur fjármálaráðuneytinu er ekki öruggt að Bjarni setjist þar, enda búinn að vera í því frá 2013, að undanskildum nokkrum mánuðum árið 2017 þegar hann var forsætisráðherra. Annar ráðherra úr hans flokki gæti því tekið við lyklunum að „veski ríkissjóðs“.
Ef Framsóknarflokkur og Vinstri græn myndu ákveða að fara í minnihlutastjórn með Samfylkingu, sem tapaði fylgi og þingmanni í liðnum kosningum, myndu flokkarnir fá mun meiri áhrif og fleiri ráðuneyti til að stýra. Engin hefð er fyrir myndun minnihlutastjórna sem varðar eru falli af flokkum sem standa utan formlegs stjórnarsamstarfs hérlendis. Það er fyrirkomulag sem tíðkast víða á Norðurlöndunum en minnihlutastjórnir eru við stjórnvölinn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem stendur. Í Finnlandi er meirihlutastjórn fimm flokka.