Hópuppsögn Eflingar kom Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, á óvart og segir hann hana ömurlega. Um tíu starfsmenn á skrifstofu Eflingar eru í VR og boðað hefur verið til aukafundar í stjórn VR á morgun vegna málsins. „Allar uppsagnir eru náttúrulega bara ömurlegar,“ segir Ragnar Þór í samtali við RÚV.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lagði til á stjórnarfundi félagsins í vikunni að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp störfum. Tillagan var lögð fram og samþykkt af átta manna meirihluta B-lista undir forystu Sólveigar Önnu. Hún segir að staðið hafi verið rétt að ferlinu.
Hópuppsögnin hefur verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af Drífu Snædal forseta ASÍ. Heldur stóð á viðbrögðum innan verkalýðshreyfingarinnar til að byrja með en í gær sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í samtali við RÚV að hópuppsögn Eflingar hefði komið honum á óvart. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í sama streng í dag, einnig í samtali við RÚV.
Bjóst við breytingum en ekki þessu
Ragnar Þór segir að búast mætti við breytingum eftir sigur Sólveigar Önnu í formannskjöri Eflingar fyrr á þessu ári sem var, að hans sögn, risastórt uppgjör innan félagsins. Hann átti samt ekki von á þessu.
VR hefur tekið á móti því félagsfólki sem starfar á skrifstofu Eflingar, sem eru um tíu talsins, og tryggt að þau fái bestu mögulegu þjónustu og stuðning, að sögn Ragnars.
Ræða mögulega stefnubreytingu á stjórnarfundi
Ragnar hefur boðað til aukafundar í stjórn VR á morgun, laugardag, til að ræða hópuppsögnina. Hann segir að stjórn VR hafi hingað til ekki viljað íhlutast í þær deilur og átök sem hafa verið á skrifstofu Eflingar en að hann hafi fundið fyrir þrýstingi, bæði á sig og félagið, að koma með yfirlýsingar. Það segir hann hafa verið erfitt þar sem VR sé í viðkvæmri stöðu gagnvart félagsmönnum sem félagið er að verja hagsmuni fyrir.
Á fundinum verður rætt hvort gerð verði stefnubreyting hvað þetta varðar, það er hvort íhlutast verði varðandi málefni Eflingar, og verður það í höndum stjórnar VR að ákveða það. Íhlutunin yrði þá fólgin í því að hafa skoðanir á málinu, hvort sem það verður í formi yfirlýsingar eða ekki, að sögn Ragnars Þórs. Hann á þó ekki sérstaklega von á að svo verði.