„Ég er ekki í felum. Ég er á samfélagsmiðlum á hverjum degi. Öllum ætti að vera kunnugt hvar ég held mig,“ segir Isabel dos Santos, dóttir fyrrverandi forseta Angóla sem stjórnvöld báðu alþjóða lögregluna, Interpol, nýverið að gefa út handtökuskipun á. Dos Santos sagði í einkaviðtali við þýska fjölmiðilinn Deutsche Welle fyrir helgi að sér hefði ekki formlega verið tilkynnt um handtökuskipunina og að hún hefði hingað til verið fús til samstarfs við yfirvöld. „Þegar portúgölsk yfirvöld hafa kallað mig til þá hef ég alltaf mætt á réttum tíma og gefið skýrslu. Ég á ekki í neinum vandræðum með að hjálpa [yfirvöldum] að komast að sannleikanum. En ég geri ráð fyrir að saksóknari í Angóla vilji í raun ekki að ég gefi vitnisburð fyrir dómi.“
Isabel dos Santos er elsta barn Jose Eduardo dos Santos sem var forseti Angóla í tæpa fjóra áratugi. Hún er talin hafa efnast mjög á ættartengslum sínum og komist að kjötkötlunum í Angóla fyrir hans tilstilli. En síðustu ár hefur hún verið sökuð um svik og spillingu og er nú eftirlýst fyrir margvíslega meinta glæpi, m.a. fjárdrátt og peningaþvætti.
Núverandi stjórnvöld landsins sökuðu hana árið 2020 um að hafa fært tugi milljóna bandaríkjadollara úr sjóðum ríkisins til fyrirtækja sem hún og eiginmaður hennar héldu um stjórnartaumana í. Þau eru einnig sökuð um að hafa komist yfir hluti sína í þessum fyrrum ríkisfyrirtækjum með aðstoð föður hennar. Meðal fyrirtækjanna sem hún er talin hafa hagnast á með þessum millifærslum er olíurisinn Sonangol. Út úr því fyrirtæki er hún svo sökuð um hafa fært peninga á bankareikninga í skattaskjólum.
Dos Santos er umfjöllunarefni Lúanda-skjalanna, sem lekið var til Samtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ, árið 2020 og fréttir í kjölfarið birtar upp úr í fjölmiðlum víða um heim. Helstu niðurstöður þeirra eru að í tvo áratugi voru stunduð innherjaviðskipti sem gerðu Isabel dos Santos að ríkustu konu Afríku en hið olíu- og demantsauðuga Angóla að einu fátækasta ríki veraldar.
Í viðtalinu við DW segir dos Santos að skjölunum hafi verið lekið til að koma höggi á fjölskyldu hennar.
„Miklu magni af röngum upplýsingum var dreift með Lúanda-skjölunum,“ segir hún. „Og að baki lekanum er skrifstofa ríkissaksóknara Angóla og angólska ríkið sem réði hóp blaðamanna til að dreifa upplýsingunum.“
Hún segist vilja aðstoða svo að sannleikurinn komi fram. „Fólk þarf að vita að hin svokallaði Lúanda-leki eru pantaðar lygar. Þetta er samsæri gegn mér og minni fjölskyldu.“
Vefur fyrirtækja með tengsl við skattaskjól
Í Lúanda-skjölunum var afhjúpaður vefur meira en 400 fyrirtækja og dótturfyrirtækja í 41 landi sem tengjast dos Santos og eiginmanni hennar heitnum, Sindika Dokolo, þar af eru 94 í skattaskjólum. Dokolo lést árið 2021 í köfunarslysi.
Margir fjármálaráðgjafar og fyrirtæki á Vesturlöndum aðstoðuðu við að færa til peninga, stofna félög og endurskoða reikninga. Þessir aðilar veittu sumir ráðgjöf um hvernig væri hægt að skjóta fé undan skatti á meðan aðrir þóttust ekki taka eftir neinu misjöfnu sem margt benti til að væri í gangi.
Skjölin sýna einnig hvernig Isabel dos Santos keypti banka á meðan aðrar fjármálastofnanir og tryggingafélög neituðu að stunda viðskipti við hana því þeim þótti ekki ljóst hvaðan auður hennar kæmi. Að hún hafi ginnt stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja á Vesturlöndum til að setja peninga í verkefni sín og þrýst á uppbyggingarverkefni sem varð til þess að þúsundir fátækra Angólamanna misstu heimili sín við ströndina.
Þá er hún samkvæmt skjölunum sögð hafa beint hundruðum milljónum dollara sem fengnar voru að láni eða með samningum til eigin fyrirtækja og tengdra aðila, m.a. með því að millifæra 38 milljónir dollara frá ríkisrekna olíufyrirtækinu Sanangol inn á reikning í Dubaí, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að forsetinn hafði rekið hana úr starfi stjórnarformanns.
DW ræðir einnig við Ana Gomes, portúgalskan stjórnmálamann og fyrrverandi fulltrúa Evrópuþingsins. Hún segir rangt að Lúanda-skjölin hafi verið pöntuð af stjórnvöldum í Angóla. Þeim hafi verið lekið til samtaka rannsóknarblaðamanna og tugir blaðamanna víða um heim hafi svo greint þau og birt úr þeim fréttir. Allar upplýsingar sem birtust hafi verið staðfestar.
Auðuga ríkið með fátæka fólkinu
Angóla er á vesturströnd Afríku og er sjöunda stærsta land álfunnar að flatarmáli. Landamæri þess liggja að Namibíu, Austur-Kongó og Sambíu. Líkt og í mörgum öðrum Afríkulöndum voru landamærin dregin af nýlenduherrum, Portúgölum í þessu tilviki, sem fyrst komu sér þar fyrir á sextándu öld. Innan landamæranna lentu margar og ólíkar þjóðir og er ríkið fékk sjálfstæði árið 1975 braust út blóðug borgarastyrjöld sem varði í 27 ár. Þúsundir féllu og efnahagur landsins hrundi.
Dos Santos þvertekur fyrir að hafa efnast af ríkiseignum heimalands síns. „Þegar ég var skipuð í stjórn Sonangol þá kom ég úr einakgeiranum. Ég hafði þá þegar stjórnað mörgum öðrum fyrirtækjum. Ég vil taka það skýrt fram: Mín fyrirtæki voru ekki byggð upp fyrir almanna fé.“
Á síðustu árum hefur Isabel dos Santos verið í margvíslegum fyrirtækjarekstri, m.a. í bankastarfsemi, fjarskiptum og tæknigeiranum. Í viðtalinu við DW segist hún hafa fengið fé að láni til að byggja upp viðskiptaveldi sitt.
Fékk lánin vegna tengsla
Gomes heldur því hins vegar fram að dos Santos hafi fengið lán og geta nýtt almanna fé vegna fjölskyldutengslanna. Lánin hafi oft og tíðum verið „af vafasömum uppruna“ og því haldið fram að í raun hafi verið um opinbert fé að ræða.
„Hún var dóttir forseta Angóla. Hún hefði aldrei haft aðgang að því fjármagni sem hún hafði og þeirri stöðu sem hún fékk í þessum fyrirtækjum ef hún hefði ekki verið dóttir forsetans.“
Dos Santos segir að dómskerfi Angóla sé byggt á sandi. Það sé ekki sjálfstætt. Lög séu höfð að engu og margvísleg mistök gerð í meðhöndlun dómstóla. „Áður en ég lenti í þeirri stöðu sem ég er núna í vissi ég af þessu,“ segir hún.
Isabel Dos Santos tók milljónir á milljónir ofan að láni hjá portúgölskum bönkum, segir Gomes. Hún hafi skilið eftir sig sviðna jörð. Það sé óásættanlegt að hún hafi enn ekki verið dregin til ábyrgðar, hvorki í Portúgal né Angóla.