Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að til lengri tíma þurfi að skoða hugmyndir um að skattleggja þá sem hafa í raun hagnast á kórónuveirukreppunni. „Það er að greina það í fyrsta lagi hverjir hafa hagnast á þessari stöðu. Síðan finnst mér að sjálfsögðu eðlilegt að farið verði yfir þá tekjuöflunarmöguleika sem þar eru fyrir hendi.“
Þetta kom fram í svari hennar við óundirbúinni fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til að einstaklingar og fyrirtæki sem högnuðust vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem sköpuðust í kórónuveirufaraldrinum greiði tímabundinn skatt, nokkurs konar samstöðuskatt, til að vinna gegn ójöfnuði sem af þeirri þróun hlýst. Sá ójöfnuður felur í sér að þær takmarkanir sem ráðist hefur verið í til að hemja faraldurinn hafa bitnað mest á yngra fólki og lágtekjufólki, sem hafa fyrir vikið setið eftir í kaupmætti á meðan að fjöldi einstaklinga sem hafa haldið vinnu hafa aukið sinn kaupmátt og fyrirtæki sem hafa ekki þurft að loka hagnast vel á aðstæðunum.
„Of margir sem hafa það skítt“
Logi sagði í fyrirspurn sinni að ráðherrar neituðu að horfast í augu við veruleikann sem við blasi hérlendis þegar þeir væru sífellt að vitna í meðaltöl um auknar ráðstöfunartekjur. Þar benti hann sérstaklega á orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtölum þar sem hann talaði um hærri ráðstöfunartekjur heimila.
Fjármálaráð birti umsögn um þá áætlun nýverið og í henni var sérstaklega bent á hættuna á því að lesa of mikið úr meðaltölum. „Sumar afleiðingar samdráttarins koma niður á flestum heimilum, s.s. hækkandi almennt verðlag, en atvinnuleysi kemur einungis niður á þeim sem fyrir því verða. Í framlagðri fjármálaáætlun er ítarleg umfjöllun um stöðu heimilanna þar sem byggt er á meðaltölum. Meðaltöl segja þó lítið þegar frávikin eru stór,“ segir í umsögn Fjármálaráðs.
Logi sagði að aðgerð eins og samstöðuskattar ætti að geta fallið vel í kramið hjá flokkum sem vilja berjast gegn ójöfnuði og spurði í kjölfarið hvort að Katrín áformaði að ráðast í einhverjar slíkar aðgerðir eða „hvort hún telji það kannski pólitískt ómögulegt í núverandi ríkisstjórn.“
Katrín svaraði því til að hugmyndir um að skattleggja þá sem hefðu hagnast á kreppunni væri eitthvað sem hún teldi að þyrfti að skoða til lengri tíma. Þegar greint hefði verið hverjir hefðu hagnast á stöðunni væri „að sjálfsögðu eðlilegt að farið verði yfir þá tekjuöflunarmöguleika sem þar eru fyrir hendi.“