Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sakar einstaka forystumenn verkalýðshreyfingarinnar um að stunda pólitík á kostnað umbjóðenda sinna í yfirstandandi kjaradeilum. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Sumir verkalýðsforingjar geri allt hvað þeir geti til gera ríkisstjórninn sem erfiðast fyrir.
Aðspurður um hvort honum finnist yfirstandandi verkfallsaðgerðir vera pólitískar, og hvort verkalýðshreyfingin væri herskárri nú en í tíð fyrri ríkistjórnar, sagði forsætisráðherra svo vera.
„Tvímælalaust. Mér finnst þetta vera óvenju pólitískar vinnudeilur núna, og ég held ég sé ekki einn um það. Ekki af hálfu launþeganna heldur af hálfu margra forystumanna launþegahreyfingarinnar. Sem að mínu mati ganga sumir hverjir allt of langt í því að nota stöðu sína sem trúnaðarmenn þessara félaga í pólitískum tilgangi. Það er að segja í baráttu við stjórnvöld á nýjum vígvelli, ef svo má segja, hafandi talið sig hafa farið halloka í kosningum. Það sem er sérstaklega slæmt við þetta er að með því eru þeir hugsanlega að fórna hagsmunum umbjóðenda sinna, ef þeir ganga það langt að við missum verðbólguna hér á fullt og kjörin rýrna á sama tíma og lánin hækka, það væri býsna dýr pólitísk aðgerð.“
Margir þeirra vilja koma ríkistjórninni frá
Aðspurður um hvort um pólitískar aðgerðir væri að ræða til að koma ríkisstjórn hans frá völdum, svaraði Sigmundur Davíð: „Eflaust langar þá marga til að koma ríkisstjórninni frá, það er svo sem ekkert launungarmál. En hins vegar bitnar verðbólgan ekki verst á ríkinu. Ríkið getur mjög fljótt lagað sig að verðbólgu og verðbólga jafnvel aukið hagvöxt og aukið tekjur ríkisins ef menn grípa til ráðstafana til að hafa tekjur af verðbólgunni, þannig að ríkið mun spjara sig. En það eru helst umbjóðendur þessara forystumanna verkalýðshreyfingarinnar sem myndu bíða skaða af, sem væri svo gríðarlega mikil synd því núna er einstakt tækifæri til að halda áfram að auka raunverulegan kaupmátt á Íslandi, bæta kjörin og bæta sérstaklega kjörin hjá lægri og millitekjuhópunum. Vonandi ná menn nú saman um það að skipta þessum ávinningi á sanngjarnan hátt þannig að við getum stjórnvöld bætt í, haldið áfram að stuðla að auknum jöfnuði og nýtt öll þessi jákvæðu vopn sem stjórnvöld hafa inn í þessa stöðu.“
Aðspurður um hvort honum finnist verkalýðsforystan óvenju óbilgjörn um þessar mundir, og hvort hann teldi hana vera að reyna að gera ríkisstjórn hans sem erfiðast fyrir, svaraði forsætisráðherra: „Mér finnst sumir af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar tala með þeim hætti já, þegar þeir fara í það að rökstyðja aðgerðir sínar fyrst og fremst með vísan í pólitík og óánægju með pólitíska stefnu og þar fram eftir götunum. Eða bara einfaldlega óánægju með það að tilteknir flokkar séu við völd.“