Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, torvelda gerð kjarasamninga með ásökunum í garð verkalýðsforystunnar og hótunum um skattahækkanir sem hann hafi viðhaft í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Í áðurnefndu útvarpsviðtali sakaði forsætisráðherra „marga“ forystumenn verkalýðshreyfingarinnar um að stunda pólitík í yfirstandandi kjaradeilum á kostnað umbjóðenda sinna. Að þeir gerðu allt hvað þeir geti til að gera ríkisstjórninni sem erfiðast fyrir.
Rikisstjórnin beri sjálf ábyrgð á stöðunni
Forseti ASÍ segir þetta af og frá. „Hins vegar hefur ríkisstjórnin valið sér það hlutskipti að standa vörð um efnameiri fjölskyldur og fyrirtæki í landinu. Við þekkjum þetta með auðlegðarskattinn og skattalækkunina á sjávarútvegsfyrirtækin, sem eru að skila milljarða hagnaði á hverju ári, og það hefur valdið mikilli reiði í landinu. Þeirri kröfu hefur verið beint að verkalýðshreyfingunni að hún krefjist réttlætis og jöfnuðar og það kemur greinilega eitthvað við kaunin á forsætisráðherra að við séum að krefjast þess að hér ríki eitthvað réttlæti,“ segir Gylfi Arnbjörnsson í samtali við Kjarnann.
Forsætisráðherra sagði sömuleiðis í útvarpsviðtalinu á Bylgjunni að til greina komi að hækka skatta á almenning og fyrirtæki í landinu, ef verulegar launahækkanir kynda undir þenslu og verðbólgu. Það sé ein þeirra fáu aðgerða sem stjórnvöld geti gripið til til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.
Forseti ASÍ minnir í þessu sambandi á að samningar sem ríkið stóð að á síðasta ári, til að mynda við lækna, hafi leitt til þeirrar ólgu sem nú ríki á vinnumarkaði. „Við skulum ekki gleyma því að bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra, og hvernig sá síðarnefndi hvatti til samninga við læknana, geta ekki firrt sig þeirri ábyrgð á því ástandi sem er hérna. En það heyrir algjörlega til nýmæla að forsætisráðherra, í þeirri alvarlegu stöðu sem nú er, það eru tugþúsundir manna að fara í verkfall eftir tvo virka daga, að hann skuli velja sér tímapunktinn til þess að fara fram með þessa vitleysu, að hóta fólki skattahækkunum ef það fær réttmætar launahækkanir. Það er eins og forsætisráðherra vilji ögra fólki til að fara í verkfall.“
Munu krefjast sérákvæðis ef til stendur að hækka skatta
Forseti ASÍ segir að forsætisráðherra hafi torveldað gerð kjarasamninga með ummælum sínum í dag. „Það liggur í augum uppi að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessum hótunum um skattahækkanir með þeim hætti að krefjast þess að í forsenduákvæði kjarasamninga verði sett inn ákvæði um það að ef ríkisstjórnin hækki skatta á launafólk þá verði samningar lausir,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Kjarnann.