„Það hefur verið okkar skoðun að laun sem hlutfall af landsframleiðslu séu lægri en við verði unað til lengdar og því þyrfti að hækka laun meira en sem nemur því svigrúmi sem atvinnurekendur, stjórnvöld og Seðlabanki töldu forsvaranlegt. Því settu aðildarfélög ASÍ fram kröfur sem voru í takt við þessa afstöðu okkar. Rök okkar á síðasta ári voru einmitt byggð á því mati okkar að afkoma fyrirtækjanna leyfði slíka nálgun - kjarasamningar snúast jú ekki síður um réttláta skiptingu þeirra verðmæta sem til verða í efnahagsstarfseminni. Þessar tölur staðfesta að við höfðum rétt fyrir okkur.“
Segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands í samtali við Kjarnann. Samkvæmt nýjum álagningartölum ríkisskattsjóra námu tekjur einstaklinga af arði tæpum 30 milljörðum króna á síðasta ári, og jukust um rúm 50 prósent á milli ára. Forseti ASÍ telur að fullyrða megi út frá þessu að engin sérstök ástæða sé til þess að fyrirtæki velti launahækkunum út í verðlagið, eins og því miður hafi verið allt of mörg dæmi um undanfarið.
Fyrirtækin verða að halda aftur af sér
„Ef hér á takast að mynda einhverja sátt til lengri tíma litið á vinnumarkaði er alveg ljóst að forystumenn fyrirtækjanna í landinu verða að halda aftur af sér og tryggja að kaupmáttur hér á landi verði í einhverju samræmi við það sem best gerist í nágrannalöngum okkar. Að öðrum kosti mun landflótti halda hér áfram og ólga verður viðvarandi á vinnumarkaði,“ segir Gylfi.
En telur forseti ASÍ að tölurnar sýni að meira sé hægt að sækja til fyrirtækja landsins? „Nú þurfum við að sjá hvernig fyrirtækin bregðast við nýgerðum kjarasamningum og hvernig heildarskipting verðmætasköpunarinnar verður í kjölfarið. Ef fyrirtækin bregðast við með umtalsverðum verðhækkunum og freista þess að halda launahlutfallinu niðri og hagnaðarhlutfallinu uppi gæti reynt á forsendur kjarasamninga sem koma til skoðunar í febrúar á næsta ári og þarnæsta ári.
Náist ekki markmið um aukin kaupmátt eða ef aðrir hópar semja um meiri launahækkanir en samið var um á almennum vinnumarkaði munu stéttarfélögin geta endurmetið þátttöku sína í þessari vegferð og sagt kjarasamningum lausum. Ómögulegt er að segja til um það í dag hvernig þessi þróun verði, en við munum auðvita fylgjast náið með þessari þróun.“