Xi Jinping, forseti Kína, segir í viðtali við Wall Street Journal, að þrátt fyrir mikið verðfall á kínverskum verðbréfamörkuðum og hægagang í hagkerfinu miðað við það sem á undan hefur gengið, þá muni kínverska hagkerfið ná vopnum sínum og endurskipulagning á því muni eiga sér stað.
Þetta var fyrsta viðtalið sem forsetinn veitir erlendum fjölmiðli frá því að hlutabréfamarkaðurinn kínverski hrundi í sumar. Hann segir stoðir kínverska hagkerfisins traustar en það verði krefjandi að breyta kerfinu og endurskipuleggja það, meðal annars opna það meira fyrir alþjóðvæddri veröld viðskipta.
Hagvöxtur í Kína hefur farið minnkandi að undanförnu og er nú gert ráð fyrir að hann jafnvel undir sex prósent en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir sjö til átta prósent hagvexti. Hagfræðingar í Bandaríkjunum hafa miklar efasemdir um að kínverskar hagtölur séu réttar, og sýndi könnun Wall Street Journal meðal annars að fáir treystu tölunum. Einn lét hafa eftir sér að „aðeins fífl“ treystu þessum tölum. Telja þeir að hagvöxturinn sé í reynd allt að tveimur prósentustigum minni en opinberu tölurnar gefa til kynna, og munar um minna í hagkerfi þar sem fimmtungur mannkyns býr, 1,4 milljarðar.