Sjö rússneskum viðskiptamönnum með tengsl við rússnesk stjórnvöld var í morgun bætt á lista breskra stjórnvalda yfir einstaklinga sem sæta skulu viðskiptaþvingunum. Einn þessara aðila og sá langríkasti af sjömenningunum er Roman Abramovich, eigandi knattspyrnuliðsins Chelsea í Lundúnum.
Allar eignir Rússanna sjö í Bretlandi verða frystar – og þar á meðal sjálft fótboltaliðið. Abramovich tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði sér að selja knattspyrnufélagið og láta ágóðann renna til „fórnarlamba stríðsins í Úkraínu“, en ljóst virðist að ekkert geti orðið af þeim áformum á næstunni. Hið minnsta mun Abramovich ekki fá að hafa neitt að gera með ráðstöfun ágóðans af mögulegri sölu, samkvæmt breskum miðlum.
Knattspyrnuliðið fær áfram að leika leiki sína, en má ekki selja neina nýja miða né selja stuðningsmönnum neinn varning með beinum hætti í gegnum verslanir á vegum liðsins. Félagið mun heldur ekki geta samið við leikmenn sína um áframhaldandi veru hjá liðinu né keypt nýja leikmenn, en sérstakt leyfi hefur verið gefið út til þess að liðið fái að spila kappleiki sína og greiða leikmönnum og öðru starfsfólki laun.
Samkvæmt því sem fram kemur á vef Sky-fréttastofunnar má Chelsea verja 500 þúsund pundum í nauðsynlega öryggisgæslu fyrir kappleiki á sínum eigin heimavelli, en einungis 20 þúsund pundum í ferðalög liðsins í útileiki.
Það er jafnvirði 3,4 milljóna íslenskra króna og má teljast hæpið að knattspyrnumenn liðsins ferðist með einkaþotum í leiki fjarri London á næstunni – nema þeir ákveði ef til vill sjálfir að slá saman í sjóð fyrir ferðakostnaði.
Stál frá fyrirtæki undir stjórn Abramovich mögulega notað í rússneska skriðdreka
Í skjali sem bresk yfirvöld birtu í morgun er fjallað um ástæðurnar fyrir því að Abramovich og sex rússneskir auðmenn til viðbótar sæta nú refsiaðgerðum. Í tilfelli Abramovich virðist ástæðan fyrir refsiaðgerðunum einna helst vera eignarhald hans á stálframleiðandanum Evraz, þar sem hann fer með ráðandi hlut.
Abramovich er lýst, í skjali breskra yfirvalda, sem nánum stuðningsmanni Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Í skjali breskra stjórnvalda segir að Evraz kunni mögulega að hafa selt rússneska hernum stál sem nýtt hafi verið til framleiðslu á skriðdrekum. Evraz, sem er skráð á hlutabréfamarkað í London, hefur tapað yfir 80 prósentum af markaðsvirði sínu undanfarinn mánuð og hlutabréf í félaginu hafa lækkað um rúm tíu prósent í verði bara í dag.
Bresk yfirvöld gagnrýnd fyrir að hreyfa sig hægt
Rússnesku auðmennirnir sjö bætast í hóp um tvöhundruð annarra einstaklinga sem sæta nú refsiaðgerðum Breta vegna innrásar Pútíns í Úkraínu. Breska ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að hreyfa sig hægt í refsiaðgerðum sínum gagnvart – og hafa gagnrýnendur bent á að þeir sem óttist refsiaðgerðir hafi haft rúman tíma til þess að koma eignum sínum frá Bretlandi og í skjól.
Breskir ráðherrar eru vígreifir í yfirlýsingum sínum í dag. Í fréttatilkynningu breskra stjórnvalda vegna aðgerðanna á hendur auðmönnunum sjö er haft eftir Boris Johnson forsætisráðherra að ekkert skjól eigi að finnast fyrir þá sem stutt hafi við grimmdarlegar árásir Pútíns á Úkraínu.
„Refsiaðgerðir dagsins eru nýjasta skrefið í einörðum stuðningi Bretlands við Úkraínumenn. Við munum verða vægðarlaus í eltingarleik okkar við þau sem styðja við dráp á almennum borgurum, eyðileggingu spítala og ólöglegt hernám sjálfstæðra bandamanna okkar,“ er einnig haft eftir Johnson.