Frakkar glíma nú við mestu þurrka í sögu landsins og hefur sérstakur viðbragðshópur verið settur á laggirnar vegna ástandsins. Nú þegar er vatn skammtað í rúmlega 100 sveitarfélögum í landinu og tankbílar flytja vatn til þeirra svæða þar sem bókstaflega ekkert er eftir í krönunum.
Óttast er að ástandið muni hafa veruleg áhrif á uppskeru í landbúnaðarhéruðum landsins sem mun auka á vandann í framboði matvæla á heimsvísu sem hefur verið viðvarandi eftir innrás Rússa í Úkraínu, að því er fram kemur í umfjöllun BBC. Áætlanir gera ráð fyrir að kornuppskera í landinu, sem að mestu er nýtt til fóðrunar búpenings, verði 18,5 prósentum minni í ár en í fyrra, samkvæmt franska landbúnaðarráðuneytinu. Talið er að þurrkarnir muni vara í það minnsta tvær vikur í viðbót.
Í yfirlýsingu frá Élisatbeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, segir að þurrkarnir séu þeir verstu í sögu landsins. Úrkoma hefur verið með minnsta móti í landinu og hitabylgjur sem gengið hafa yfir landið á síðustu vikum hafa auk þess aukið vatnsnotkun umtalsvert. Þar af leiðandi hafa vatnsbirgðir í landinu þrotið. Í yfirlýsingu sinni hvatti Borne Frakka til þess að aðgætna í notkun sinni á vatni.
Hefur áhrif á orkuframleiðslu í landinu
Hitabylgjurnar hafa einnig áhrif á orkuframleiðslu í landinu. Orkufyrirtækið EDF sem rekið er af hinu opinbera hefur þurft að draga úr orkuframleiðslu í nokkrum af kjarnorkuverum sínum vegna þess að vatn sem fengið er úr ám og notað er til kælingar í orkuverunum hefur verið of heitt til þess að það nýtist sem skyldi.
Greint er frá því í umfjöllun New York Times að neyðarástand ríki í meira en helmingi af héruðum Frakklands og að fólki hafi verið meinað að vökva garða og þvo bíla sína sökum vatnsskortsins. Þá hafa bændur ekki geta vökvað hluta af ræktarlöndum sínum. Síðastliðinn júlí var sá úrkomuminnsti júlímánuður í landinu í rúmlega 60 ár en í mánuðinum mældist 9,7 millimetra úrkoma. Til samanburðar var meðalúrkoma í Reykjavík á árunum 1991 til 2020 rétt rúmlega 50 millimetrar.
Haft er eftir Christophe Céchu, ráðherra orkuskipta í Frakklandi, að þurrkarnir sem nú ganga yfir væru af óþekktri stærðargráðu. „Vegna loftslagsbreytinga þurfum við að venjast atburðum sem þessum,“ sagði Céchu.
Veðurfar einnig haft áhrif víðar í álfunni
Víðar í Evrópu hafa miklir hitar haft áhrif á vatnsbúskap. Júlímánuður hefur ekki verið eins þurr á Englandi síðan árið 1935 og hefur íbúum þar verið bannað að nota garðslöngur og þeir því ekki getað þvegið bíla sína eða vökvað garða.. Sömu sögu er að segja frá Spáni en vatnsnotkun hefur til dæmis verið takmörkuð í syðsta héraði landsins, Andalúsíu.
Árið í ár er eitt það þurrasta í sögu Ítalíu og líklegt er talið að það verði einnig það heitasta í sögunni. Sökum þurrkanna hefur saltur sjór úr Adríahafi flætt upp ánna Pó sem ógnar uppskeru í landbúnaðarhéruðum Pódalsins sem staðsett eru næst hafi.