Franskir sjómenn reyndu að loka fyrir skipaumferð til Bretlands um franskar hafnir og bílaumferð við Ermarsundsgöngin á föstudaginn í mótmælaskyni við fyrirkomulag fiskveiða í Ermarsundi eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram á fréttasíðu Reuters.
Málið hefur leitt til mikillar spennu á milli landanna tveggja í ár, en bæði löndin hafa sent skip frá landhelgisgæslu sinni til að fylgjast með þróun mála á svæðinu.
Samkvæmt samkomulagi á milli Bretlands og Frakklands um fiskveiðar eftir Brexit eiga Bretar að gefa sjómönnum frá aðildarríkjum Evrópusambandsins leyfi til fiskveiða í sinni landhelgi. Um 1.700 slík leyfi hafa verið gefin út, en samkvæmt frönskum yfirvöldum er það ekki nóg, enn vanti 150 leyfi. Bretar segjast hins vegar fylgja núverandi samningum í einu og öllu, leyfum hafi einungis verið neitað til þeirra sjómanna sem hafa ekki tilskilda pappíra til að sækja um þau.
„Munum eyðileggja partýið“
Á morgni föstudags hindruðu franskir sjómenn för bresks vöruflutningaskips sem var á leiðinni til eyjarinnar Jersey, sem er á bresku yfirráðasvæði. Einnig settu þeir upp vegatálma við franska enda Ermarsundsgangnanna og lokuðu fyrir umferð við höfnina í Calais.
Sjómennirnir vilja sjá breytingar á fyrirkomulaginu fyrir 10. desember, svo að hægt verði að bjarga jólunum í Bretlandi. „Ef við sjáum engar breytingar...trúðu mér, þá munu Englendingarnir ekki halda upp á töfrandi jól, við munum eyðileggja partýið,“ segir einn þeirra í viðtali við Reuters.