100 milljón króna styrkur sem meirihluti fjárlaganefndar ætlaði að veita N4 „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ með breytingartillögu á fjárlögum fellur ekki undir ábyrg fjármál að mati Hönnu Katrínar Friðrikssonar, þingmanns Viðreisnar.
Styrknum var bætt á fjárlög eftir að beiðni þar um kom frá Maríu Björk Ingvadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækisins N4 á Akureyri. Í beiðninni bað hún um að 100 milljónir króna myndu verða látnir renna úr ríkissjóði til miðilsins. Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni samþykktu fjárheimildina. Þeirra á meðal var Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann er mágur framkvæmdastjórans.
Kjarninn sagði frá beiðninni á miðvikudagsmorgun. Fréttin vakti mikla athygli og málið var til umfjöllunar á flestum helstu fréttamiðlum landsins.
Á miðvikudagskvöld birti meirihluti fjárlaganefndar meirihlutaálit þar sem segir að við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið hafi verið samþykkt tillaga um tímabundið framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. „Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“
Óreiðukenndari mynd af rekstrarhorfum fjölmiðla
Hanna Katrín setti styrkinn, eða tilraunina til styrkveitingar, í samhengi við lög um opinber fjármál sem sett voru árið 2015. Undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun vísaði Hanna Katrín í orð Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, sem sagði við setningu laganna að „þetta snerist um vandaðan undirbúning fjárlaga til að trygga fjárlagafrelsið og tryggja yfirsýn, draga úr frávikum og styrkja gegnsæið.“ Þá vísaði hún einnig í orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi varaformann fjárlaganefndar, sem sagði ekki nóg að lögfesta málið, vinnubrögð þyrftu að fylgja því sem þarna stæði.
Lögin tóku gildi í byrjun árs 2016. Hanna Katrín sagði að í raun hefði ekki reynt á lögin fyrr en nú vegna fjölda Alþingiskosninga auk kórónuveirufaraldursins sem hafa einkennt síðustu ár.
„Og hvað gerist? Á lokasentímetrum afgreiðslu fjárlaga laumaði meirihluti fjárlaganefndar, laumuðu þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í gegn 100 milljón króna styrk til einkarekinna fjölmiðla á landsbyggðinni, fjölmiðla sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð,“ sagði Hanna Katrín.
Meirihluti nefndarinnar hafi þannig kippt „sisvona“ úr sambandi fyrirkomulagi um styrk til einkarekinna fjölmiðla.
„Síðar kom í ljós við eftirgrennslan forviða fjölmiðla að þessi viðbót var ætluð einni tiltekinni sjónvarpsstöð og enn síðar kom í ljós að þessi tiltekna sjónvarpsstöð hafði sent inn beiðni um peninga til fjárlaganefndar, beiðni sem bara meiri hlutinn sá eftir að hafa fengið vísbendingar um það frá þingflokksformanni Framsóknar að slíkt gæti skilað sér — gæti skilað sér,“ hélt Hanna Katrín áfram.
Fögur fyrirheit forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um ný og betri vinnubrögð eldast ekki vel að sögn Hönnu Katrínar. „Í þokkabót sitja nú fjölmiðlar landsins eftir með enn óreiðukenndari mynd af framtíðinni og rekstrarhorfum sínum en áður og var þó nóg fyrir. Með tilliti til ábyrgra fjármála er þessi framkoma meiri hluta fjárlaganefndar ekkert annað en skandall, herra forseti.“
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tók þá til máls og sagðist velta fyrir sér hvort orðið skandall hafi fengið þegnrétt í íslensku. „Þingmálið er íslenska.“