Eimskip sendi frá sér tvær tilkynningar til Kauphallar í gærkvöldi. Í annarri þeirra er greint frá því að í gær hafi danska samkeppniseftirlitið framkvæmt húsleit í Álaborg hjá dönsku dótturfélagi Eimskip Holding B.V., sem er í eigu Eimskipafélags Íslands hf., á grundvelli dómsúrskurðar.
Þar segir að húsleitin snúi að „starfsemi Atlantic Trucking sem er hluti af Eimskip Denmark A/S og er hluti af rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku og tók til fleiri félaga á þeim markaði. Tilgangur húsleitarinnar er að rannsaka hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum danskra samkeppnislaga. Dótturfélagið vinnur að því að veita dönskum samkeppnisyfirvöldum aðgang að umbeðnum upplýsingum. Eimskipafélag Íslands hf. hefur ekki ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn dönskum samkeppnislögum í starfsemi Atlantic Trucking sem hefur um 5% markaðshlutdeild í gámaflutningum á þessum markaði.“
Húsleit á Íslandi í desember í fyrra
Seinna málið, það sem snýr að sölu Goðafoss og Laxfoss, kom upp á yfirborðið eftir umfjöllun Kveiks um það í september 2020.
Þá var sagt frá því að Eimskip hefði selt skipin tvö til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu.
Þar eru skip oft rifin í flæðarmálinu og ýmis spilliefni látin flæða út í umhverfið. Þá vinna starfsmenn þar við svo erfiðar aðstæður að þær hafa verið kallaðar mannréttindabrot.
Ein helsta ástæðan fyrir því að skip eru flutt á þessar slóðir, í umræddu tilviki í skipakirkjugarð í Alang á Indlandi, er sú að það er greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í niðurrif þar en í Evrópu. Það útskýrist af því að í Evrópu þarf að greiða laun samkvæmt kjarasamningum, viðhalda öryggi starfsmanna á vinnustöðum og mæta löggjöf frá árinu 2018 sem leggur bann við því að skip yfir 500 brúttótonnum séu rifin annars staðar en í vottuðum endurvinnslustöðvum.
Héraðssaksóknari fékk heimild til húsleitar á starfsstöðvum Eimskips á grundvelli úrskurðar héraðsdóms vegna málsins í desember 2021. Í tilkynningu Eimskips á þeim tíma sagði að embættið hefði „óskað eftir afmörkuðum gögnum vegna sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss á árinu 2019 sem Umhverfisstofnun kærði til héraðssaksóknara 2020“ og að engir einstaklingar hefðu réttarstöðu í málinu.
Það hefur nú breyst.
Stærsti eigandi Eimskips er Samherji Holding með 32,8 prósent eignarhlut. Þar á eftir koma stærstu lífeyrissjóðir landsins.