Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis – lífeyrissjóðs hefur hafnað boði trúnaðarráðsfélaga og stjórnar Eflingar um að koma á fund með félagsmönnum Eflingar til umræðu um Init-málið. Þetta kemur fram í fréttabréfi trúnaðarráðs Eflingar en þar segir jafnframt að hann hafi dregið boðið til baka þegar honum var tilkynnt að Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, yrði fundarstjóri en hann starfaði áður við fréttaskýringaþáttinn Kveik sem fjallaði um Init-málið fyrr á þessu ári.
Í skriflegu svari til Kjarnans staðfestir Árni að hafa hafnað boði um að koma á fundinn. „Nálgun forsvarsmanna Eflingar á viðfangsefninu og fyrirkomulag fundarins var með þeim hætti að það var að mínu mati ekki ásættanlegt,“ segir Árni.
Þá kemur fram hjá framkvæmdastjóranum að formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hafi jafnframt verið upplýst um að Eflingarfélögum og öðrum sjóðfélögum Gildis yrðu veittar upplýsingar um málið, meðal annars á sjóðfélagafundi sem haldinn verður 25. nóvember næstkomandi.
Kjarninn spurði hvort ákvörðun hans hefði eitthvað með nærveru Aðalsteins að gera en Árni svaraði því ekki beint. „Eins og fram kom í fyrra svari mínu þá var það nálgun Eflingarforystunnar á efninu og heildarumgjörð fundarins sem var ástæða þess að ég hafnaði því að mæta. Taldi síðan að það væri eðlilegra að fjalla um málið á sjóðfélagafundi þar sem allir sjóðfélagar Gildis fengju upplýsingar um málið og gætu spurt.“
Telur framkvæmdastjórann hafa sýnt sjóðsfélögum lítilsvirðingu
Í fréttabréfi trúnaðarráðs Eflingar segir að í samskiptum við Sólveigu Önnu hafi Árni áður fallist á boð um að koma á fund. Hann hafi dregið það til baka, eins og áður segir, þegar honum var tilkynnt að fundarstjóri yrði Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, sem áður starfaði við fréttaskýringaþáttinn Kveik og vann umfjöllun þáttarins um Init-málið.
„Mörg hundruð milljónir af lífeyrisiðgjöldum okkar hurfu í vasa skúffufyrirtækis á vakt Árna. Engar skýringar hafa komið fram frá honum á því hvernig þetta gat gerst. Það er þörf á upplýstri og trúverðugri umræðu um þetta við Eflingarfélaga, sem eiga þessa peninga. Ég tel að framkvæmdastjóri Gildis sýni sjóðfélögum og Eflingarfélögum lítilsvirðingu með því að hafna boði um að koma á fund okkar,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í fréttabréfinu.
Tæpur milljarður fór út úr Init til Init-reksturs á sex árum
Kveikur fjallaði um Init-málið í lok apríl síðastliðins en þar kom fram að þjónustufyrirtækið Init hefði rukkað lífeyrissjóði og verkalýðsfélög um vinnu sem efasemdir væru um að stæðist lög.
Í þætti Kveiks kom fram að hundruð milljóna króna hefðu streymt út úr félaginu Init og til annars félags í eigu stjórnenda Init. Það félag heitir Init-rekstur. Á árunum 2013 til 2019 fór tæpur milljarður króna út úr Init til Init-reksturs.
Init annaðist rekstur tölvukerfis, sem kallast Jóakim og heldur meðal annars utan um öll réttindi þeirra sem greiða í lífeyrissjóði. Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða og ýmis verkalýðsfélög greiða fyrir notkun á kerfinu.
Samningsbrot af hálfu Init
Ernst & Young ehf. (EY) skilaði af sér úttekt á samningi milli RL og Init ehf. um rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakims í byrjun júlí en þess má geta að RL sagði upp samningi sínum við Init fyrr um sumarið. Í úttektinni kom meðal annars fram að Init hefði brotið samninga við RL. Fram kom hjá RL að þar hefði vegið þyngst viðskiptasamband Init ehf. við undirverktaka án heimildar RL, annars vegar við félag með sama eignarhald, Init rekstur ehf., og hins vegar við nokkur félög í eigu stjórnenda Init.
Fram kom í úttektinni að ekki yrði séð að eðlilegur rekstrartilgangur hefði að öllu leyti legið að baki greiðslum milli umræddra félaga.
Í tilkynningu RL, sem birtist með niðurstöðunum, kom fram að stjórn RL myndi „á næstu vikum fara ítarlega yfir þessar niðurstöður úttektarinnar og skoða hvort gripið verði til aðgerða á grunni þeirra“.
Lífeyrissjóðir taka yfir rekstur Jóakims
Nýjustu vendingar í málinu eru þær að RL hyggst taka yfir rekstur á hugbúnaðarkerfinu Jóakim og hefur starfsfólk fyrirtækisins Init verið upplýst um þá niðurstöðu. Þetta kom fram í tilkynningu frá RL þann 21. október.
„Er þetta gert í framhaldi þess að samningi RL og Init var sagt upp í júnímánuði. Í vinnunni fram undan verður lögð áhersla á að tryggja áfram öruggan rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakim og öryggi þeirra gagna sem kerfið heldur utan um. Samhliða er stefnt að því að draga úr kostnaði við rekstur á Jóakim kerfinu til lengri tíma meðal annars með því að einfalda rekstrarfyrirkomulag.
Á næstu mánuðum verður unnið að yfirfærslu rekstrarins með starfsfólki Inits sem hafa síðustu árin séð um rekstur og þróun Jóakim tölvukerfisins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að rekstrinum, enda býr starfsfólkið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á Jóakim kerfinu sem og lífeyriskerfinu í heild sinni,“ sagði í tilkynningu RL.
Fram kom hjá RL að yfirtakan væri aðeins eitt skref í umfangsmikilli vinnu sem unnin hefði verið innan Reiknistofu lífeyrissjóða og þeirra lífeyrissjóða sem aðild eiga að Jóakim kerfinu, en aukinn kraftur hefði verið settur í verkefnið eftir að upp komst um brot Inits á samningi fyrirtækisins við RL sem voru síðar staðfest í óháðri úttekt. „Þar hafa nánast öll atriði sem snúa að rekstri og þróun kerfisins ásamt samningum við Init verið teknir til skoðunar. Sú vinna mun halda áfram næstu mánuði og misseri og verða sjóðfélagar upplýstir um þróun einstakra mála eftir því sem efni og aðstæður leyfa.“
Sagði samantektina skilja eftir margar spurningar
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar gerði úttektina að umræðuefni á Facebook-síðu sinni í byjun júlí þegar hún kom út en þar gagnrýndi hann ýmsa anga málsins.
„Því miður er það svo, að lestur þessarar samantektar skilur margar spurningar eftir ósvaraðar, rétt eins og maður óttaðist. Hvers vegna birta lífeyrissjóðirnir til að byrja með ekki skýrslu Ernst & Young í heild sinni, óstytta? Það sem er birt á netinu er efnisrýr, loðinn og almennur texti, þar sem lesandinn á þess engan kost að leggja sjálfstætt mat á eitt eða neitt. Til upprifjunar varðandi efnisatriði málsins, þá er stærsta spurningin sú hvers eðlis fjármagnstilfærslurnar milli Init og annarra fyrirtækja í eigu starfsmanna Init, sem enduðu sem arðgreiðslur í vasa þeirra, voru í reynd,“ skrifaði hann.
Spurði hann hvaða skýringar hefðu komið fram á því við vinnslu úttektarinnar. „Hver er trúverðugleiki þeirra skýringa? Er ástæða til að ætla að t.d. bókhaldslagabrot eða skattalagabrot hafi verið framin?“ spurði hann.
„Þessu er ekki í svarað í þessari skýrslu sem lífeyrissjóðirnir bera nú á borð. Maður hefði haldið að þetta væri aðalviðfangsefni skýrslunnar, það sem málið snýst um. Í raun er það afrek að það hafi tekist að svara ekki þessum spurningum! Hvað fengu Ernst & Young borgað fyrir þetta? Í staðinn fyrir að svara þessum spurningum tekst þeim þó að þyrla upp ryki í kringum alls kyns aukaatriði, eins og t.d. „heildarumgjörð samningsmála er varða persónuverndarmál“ sem sögð er hafa verið „óljós“!“
Benti hann að endingu á að ekki hefði verið haft samband við hann af hálfu Ernst & Young vegna þessarar úttektar en að frumkvæði stjórnar Eflingar hefði hann haft samband við Gildi sumarið 2020 til að koma á framfæri sömu upplýsingum um Init og þeim sem fjallað var um í þætti Kveiks fyrr á þessu ári.