Tvö ár eru liðin frá því að Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) var fyrst gert viðvart um tilfelli lungnabólgu af óþekktum orsökum í Kína. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segist í nýársávarpi sínu bjartsýnn á að nú hylli undir lok faraldurs COVID-19 en aðeins að því gefnu að þjóðir heims vinni saman. Hann varar við „þröngri þjóðernisstefnu“ og því að lönd hamstri bóluefni. „Nú þegar þriðja ár faraldursins er hafið er ég sannfærður um að þetta verði árið sem við bindum endi á hann – en aðeins ef við gerum það saman,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO í ávarpi sínu.
Frá upphafi faraldursins hafa um 290 milljónir manna greinst með veiruna. 5,5 milljónir hafa látist vegna COVID-19. Tveimur árum eftir að faraldurinn hófst eru áhrif hans á líf fólks og samfélög enn mikill: Harðar takmarkanir eru á landamærum margra ríkja, fjölskyldur geta ekki verið saman og víða er grímuskylda, fjöldatakmarkanir og nálægðaregla í gildi.
Þrátt fyrir allt þetta var bjartsýnistónn í ávarpi framkvæmdastjóra WHO, og benti hann á að eftir alla þessa mánuði væri búið að finna mörg verkfæri til að takast á við faraldurinn. Varúðarorð hans voru þó alvarleg. Hann ítrekar, enn og aftur, mikilvægi þess að bólusetja sem flesta í heiminum svo koma megi í veg fyrir að ný afbrigði veirunnar skjóti upp kollinum í óbólusettum samfélögum. Verði slíkar aðstæður áfram uppi er ómögulegt að spá fyrir um þróunina á næstunni. „Ef við bindum enda á ójafnrétti þá bindum við enda á faraldurinn,“ sagði hann og vísaði þar til þess að ríkustu þjóðir heims hafa hreinlega hamstrað bóluefni á sama tíma og fátækari ríki hafa ekki nóg til að bólusetja sína viðkvæmustu hópa og framlínustarfsfólk.
Að sögn sérfræðinga víða um heim er ýmislegt sem bendir til að ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar, sem rétt rúmur mánuður er síðan uppgötvaðist en hefur breiðst til allra heimshorna, valdi vægari einkennum en þau fyrri. Í Suður-Afríku, þar sem það uppgötvaðist í lok nóvember, hefur útgöngubanni verið aflétt enda talið að smitbylgjan sem þar gengur yfir hafi náð hámarki sínu. Þýski veirufræðingurinn Christian Drosten sagði í gær ísamtali við þýska sjónvarpið að ætti von á „frekar hefðbundnum“ vetri þar sem gögn bentu til að tilfelli ómíkrón væri ekki alvarleg.
Gríðarlegur fjöldi tilfella en færri innlagnir
Aldrei hafa fleiri tilfelli verið að greinast í mörgum löndum, m.a. Bretlandi, á Ítalíu og Grikklandi, og þessa dagana. Sjúkrahúsinnlagnir eru þó hlutfallslega mun færri en í t.d. bylgjunum sem delta-afbrigðið skæða olli. Í Suður-Afríku sem og í Bandaríkjunum eru það fyrst og fremst óbólusettir sem eru lagðir inn vegna sýkingar af völdum ómíkrón.
8,5 milljörðum skammta af bóluefni gegn COVID-19 hefur verið dreift og sagði Tedros í ávarpi sínu að bóluefnin hafi bjargað milljónum mannslífa. WHO setti það markmið að í það minnsta 40 prósent íbúa allra landa yrðu bólusett við lok ársins 2021. Það stóðst engan veginn og í mörgum fátækustu ríkjum heims telur hlutfallið aðeins örfá prósent. Á sama tíma hafa mörg ríki, flest vestræn, náð um og yfir 80 prósent bólusetningarhlutfalli og hafa hafið örvunarbólusetningar sem þykja gefa góða raun gegn alvarlegum veikindum vegna COVID-19.
Framkvæmdastjóri WHO segir að svo stöðva megi faraldurinn í ár þurfi að ná því markmiði að bólusetja 70 prósent íbúa allra ríkja fyrir lok júlí.