Framlög til RÚV úr ríkissjóði verða að óbreyttu 5,7 milljarðar króna á næsta ári. Þau hafa hækkað um 335 milljónir króna frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september. Ástæða þess, samkvæmt kynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd í gær, er almennt endurmat á innheimtu útvarpsgjaldi á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár, álagning lögaðila vegna ársins 2022 og þeirri staðreynd að innheimta gjaldanna er komin lengra en áður var talið.
Áður lá fyrir að útvarpsgjaldið myndi hækka úr 18.300 krónum á ári í 20.200 krónur á ári til að fylgja verðlagsbreytingum. Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í síðustu viku fram breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga þess efnis að framlög til RÚV verði ekki hækkuð milli ára.
RÚV fékk 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði í fyrra og tæplega 5,1 milljarð króna í ár. Auk þess þénar ríkisfjölmiðillinn rúmlega tvo milljarða króna á ári með sölu auglýsinga.
Ríkisframlögin til RÚV á næsta ári verða því að óbreyttu rúmlega milljarði krónum hærri á næsta ári en þau voru árið 2021 og 625 milljónum krónum hærri en þau eru í ár.
Framlög til styrkjakerfis lækkuð
Á sama tíma lækkar sú upphæð sem áætlað er að veita í svokallað styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla lítillega milli ára og er áætluð 377 milljónir króna. Styrkirnir eru endurgreiðsla á litlum hluta af ritstjórnarkostnaði þeirra fjölmiðla sem uppfylla ákveðin framsett skilyrði. Í ár fengu 25 fyrirtæki styrk. Alls 53 prósent upphæðarinnar fór til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Sú hækkun á framlögum til RÚV sem er áætluð milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárlög slagar því upp í heildarupphæðina sem stefnt er að því að nota til í styrkjakerfið fyrir einkarekna fjölmiðla á næsta ári. Á sama tíma og framlög til kerfisins hafa lækkað um nokkrar milljónir króna frá því sem var 2021 hafa framlög til RÚV, líkt og áður sagði, hækkað um einn milljarð króna.
Vilja 100 milljónir í landsbyggðarsjónvarp
Meirihluti fjárlaganefndar, sem samanstendur af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, hefur gert eina breytingartillögu á framlögðu fjárlagafrumvarpi milli fyrstu og annarrar umræðu sem felur í sér aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla. Um er að ræða 100 milljón króna viðbótarframlag sem er sagt „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.“
Ekki er útskýrt af hverju ráðist er í þetta viðbótarframlag og í áliti meirihluta fjárlaganefndar er ekki gerð grein fyrir því hvort eða hvaða beiðni um þetta framlag hafi komið.
Heimildir Kjarnans herma að þessi breyting sé runnin undan rifjum landsbyggðarþingmanna í stjórnarflokkunum sem telja að RÚV sinni umfjöllun um landsbyggðinni ekki nægilega vel í sjónvarpi. Sem stendur er einn fjölmiðill sem rekur sjónvarpsframleiðslu á landsbyggðinni, N4 á Akureyri. Sá fjölmiðill er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar, sem á hlut í gegnum Fjárfestingarfélagið Vör. Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er með höfuðstöðvar á Akureyri.
N4 hefur framleitt kostað efni fyrir ýmsa aðila, meðal annars Samherja, og í fyrra var helsti dagskrárgerðarmaður N4, Karl Eskill Pálsson, ráðinn í starf upplýsingafulltrúa Samherja. Fyrir þingkosningarnar í fyrrahaust var greint frá því að N4 hafi ætlað að rukka framboð fyrir að fá að vera með í kosningaumfjöllun sem stöðin ætlaði að vera með. Eftir að málið varð opinbert var hætt við umfjöllunina.
Google og Facebook taka stærstan hluta
Í gær greindi Hagstofa Íslands frá því að næstum önnur hver króna sem varið var til birtingu auglýsinga á Íslandi í fyrra hafi runnið til erlendra aðila, aðallega vegna kaupa á auglýsingum fyrir vef. Alls fóru 9,5 af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa á árinu 2021 til erlendra aðila, eða 43,2 prósent. Þessir aðilar eru aðallega Google og Facebook, en hlutur þessara tveggja alþjóðlegu stórfyrirtækja í greiðslukortaviðskiptum vegna þjónustuinnflutnings vegna auglýsinga var 95 prósent á síðasta ári.
Hlutur þessara aðila í greiðslum vegna birtingu auglýsinga hefur farið hratt vaxandi síðustu ár og rúmlega tvöfaldast á átta árum, en á föstu verðlagi fóru fimm milljarðar króna til erlendra aðila árið 2013 og, líkt og áður sagði, 9,5 milljarðar króna í fyrra.
Innlendir fjölmiðlar skiptu með sér 12,3 milljörðum króna í auglýsingatekjur á síðasta ári..
Þar segir enn fremur að eftir samdrátt í birtingu auglýsinga í kjölfar kórónuveirufaraldursins árið 2020 hafi auglýsingaútgjöld aukist á síðasta ári um fimmtung og hafa þau ekki verið hærri síðan árið 2018 reiknað á föstu verðlagi.
Árum saman hafa stjórnarliðað boðað að erlend fjölmiðlafyrirtæki, bæði auglýsingasalar og streymisveitur, sem hafa miklar tekjur hérlendis en greiða ekki virðisaukaskatt verði skattlögð frekar til að jafna leikinn gagnvart innlendum aðilum. Ekkert frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.