Í febrúar árið 2020 fundaði Unnur Orradóttir Ramette, þáverandi sendiherra Íslands í Kampala í Úganda, með Netumbo Nandi-Ndaitwah, ráðherra alþjóðasamskipta og -samstarfs í namibísku ríkisstjórninni. Til umræðu á fundi þeirra var meðal annars möguleikinn á því að íslenskir ríkisborgarar fengjust framseldir til Namibíu, samkvæmt því sem fram kemur í frétt namibíska blaðsins Namibian.
Í frétt blaðsins á miðvikudag var vitnað til bréfa sem gengið hafa á milli namibísku spillingarlögreglunnar ACC og dómsmálaráðuneytis Namibíu undanfarnar vikur.
Spillingarlögreglan er samkvæmt fréttinni orðin langeyg eftir því að dómsmálaráðuneytið, sem fer með formleg samskipti er varða réttarbeiðnir við önnur ríki, óski formlega eftir framsali þriggja núverandi og fyrrverandi starfsmanna Samherjasamstæðunnar við íslensk yfirvöld.
Samkvæmt frétt blaðsins bað spillingarlögreglan dómsmálaráðuneytið um að koma þessari beiðni af stað í febrúar á þessu ári, en síðan þá hefur ekkert gerst.
Í bréfi frá ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, sem Namibian vísar til, segir frá því að sendiherra Íslands hafi fundað með namibíska ráðherranum og á þeim fundi hafi íslenski sendiherrann gert namibíska ráðherranum ljóst að það væri bannað að framselja íslenska ríkisborgara. Ennfremur, að öllum beiðnum frá Namibíu um framsal fyrrverandi framkvæmdastjóra félaga á vegum Samherja í landinu yrði hafnað.
Fundað í Windhoek
Kjarninn hafði ekki heyrt um þennan fund fyrr og í frétt Namibian kom ekki fram hvenær hann hefði átt sér stað.
Blaðamaður beindi því fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins um það hvar og hvenær þessi fundur sem vitnað var til í frétt Namibian hefði átt sér stað.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að þessi fundur sem vísað er til í frétt Namibian hafi farið fram í Windhoek, höfuðborg Namibíu, í febrúar árið 2020, eða einungis rúmum þremur mánuðum eftir að Samherjamálið kom upp.
Hann hafi verið á milli þáverandi sendiherra Íslands í Kampala, sem var Unnur Orradóttir Remette, og ráðherra alþjóðasamskipta og alþjóðasamstarfs Namibíu, sem heitir Netumbo Nandi-Ndaitwah.