Framsóknarflokkurinn, sem á engan fulltrú í borgarstjórn Reykjavíkur í dag eftir að hafa fengið 3,2 prósent atkvæða í síðustu kosningum, býður fram í Reykjavík undir slagorðinu „Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?“.
Öruggt má telja að Framsóknarflokkurinn muni eignast borgarfulltrúa í Reykjavík eftir komandi sveitarstjórnarkosningar. Spurningin er öllu fremur hversu margir þeir verða, en samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar fengi flokkurinn þrjá fulltrúa kjörna og 12,3 prósent atkvæða.
Flokkurinn beið fremur lengi með að kynna kosningaáherslur sínar í Reykjavík, en rúllaði þeim út í síðustu viku. Kjarninn tók saman það helsta úr áherslum Framsóknar í Reykjavík, sem finna má á vef framboðsins.
Framsóknarflokkurinn segist vilja „húsnæðisáttmála“ til að ná jafnvægi í húsnæðismálum og segir að mæta verði eftirspurn með því að „byggja meira, hraðar og fjölbreyttara húsnæði“, en markmiðið segir flokkurinn að ætti að vera uppbygging 3.000 íbúða á ári.
Flokkurinn segist vilja „þétta byggð þar sem innviðir leyfa og í aukinni sátt við íbúa“ en nefnir enga sérstaka staði innan borgarinnar í því samhengi. Flokkurinn segist þó vilja „öfluga uppbyggingu í öllum hverfum borgarinnar“ og reisa nýtt hverfi á Keldnalandinu.
Í húsnæðismálum segist flokkurinn einnig styðja uppbyggingu leigumarkaðar í gegnum óhagnaðardrifin leigufélög, „eyða biðlistum eftir búsetuúrræðum fyrir fólk með fötlun“, byggja fleiri þjónustukjarna fyrir eldra fólk og „auka skilvirkni og gagnsæi“ í stjórnsýslunni til að hraða framkvæmdum.
Vilja „skilvirka Borgarlínu“ og endurvekja næturstrætó
Í samgöngumálum segist Framsóknarflokkurinn vilja „tryggja framgang Samgöngusáttmálans“, öfluga uppbyggingu almenningssamgangna og „skilvirka Borgarlínu“.
Þá segist flokkurinn vilja öfluga uppbyggingu hjóla- og göngustíga, hraða gerð Sundabrautar og endurvekja næturstrætó, sem lagðist af í kórónuveirufaraldrinum ásamt næturlífinu í miðborginni. Flokkurinn vill einnig að börn í grunn- og framhaldsskólum fái ókeypis í strætó og sömuleiðis að „skipulagsmál styðji við minnkun kolefnisfótspors“ og að 15 mínútna hverfi verði þungamiðja skipulags í borginni.
Framsókn segist vilja hækka frístundastyrk barna upp í 75 þúsund krónur á ári og að öll börn undir 18 ára aldri fái ókeypis í sund. Þá segist Framsókn vilja „eyða biðlistum eftir leikskólaplássum og auka sveigjanleika í opnunartíma án þess að lengja skóladag barna.“ Flokkurinn vill líka efla dagforeldrakerfið og bjóða svokallaðar „heimgreiðslur“ með börnum sem bíða eftir plássi á leikskóla.
Framsókn segist einnig vilja „innleiða farsældarlögin í allt starf borgarinnar“ og tryggja að börn hafi aðgang að snemmtækri íhlutun, auk þess að „gera samskipti barnafjölskyldna við stjórnsýslu borgarinnar skilvirkari“. Flokkurinn segist líka vilja öfluga uppbyggingu íþróttamannvirkja í öllum hverfum borgarinnar og efla félagsmiðstöðvar og starfsemi ungmennahúsa. Þjóðarhöll og -leikvangar eiga að rísa í borginni, að mati Framsóknar.
Í kosningaáherslum Framsóknar er margt fremur almennt orðað, en flokkurinn vill til dæmis „auka samvinnu í borgarstjórn“ til að efla traust meðal borgarbúa, „efla samvinnu og vellíðan í borginni“, að forysta innan borgarinnar verði efld, efla menningarstarf, hlúa að fjölmenningarsamfélaginu, tryggja jafnrétti allra kynja, stuðla að hinseginvænni borg, tryggja rétt fatlaðra til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar, taka vel á móti flóttafólki og tryggja úrræði fyrir heimilislaust fólk, svo eitthvað sé nefnt.
Framsókn segist vilja lækka fasteignagjöld á fyrirtæki, en tiltekur þó ekki hve mikið þau ættu að lækka, en flokkurinn segir að Reykjavík ætti að vera „höfuðborg atvinnulífs í landinu“ og „tryggja fyrirtækjum góð skilyrði til að þrífast“.
Yfirbyggt Austurstræti?
Það kennir ýmissa grasa í málefnaskrá framboðsins, en Framsókn segist vilja „skoða það að byggja yfir Austurstræti og skapa skemmtilega borgarstemningu allt árið þar sem veitingastaðir geta fært þjónustu sína út á götu“.
Einnig segist Framsókn vilja „auka öryggi íbúa með auknu samstarfi við lögreglu innan hverfa“ og tryggja að miðbærinn sé „öruggur staður að degi sem nóttu“ og að skemmtanalífið í miðborginni „raski ekki lífsgæðum íbúa þar“.
Í málefnum eldra fólks segist Framsókn vilja bæta akstursþjónustu eldri borgara, fjölga valkostum í matarþjónustu og einnig vilja að borgin hvetji hjúkrunarheimili borgarinnar til að „tileinka sér hugmyndafræði Eden-stefnunnar“ sem hefur verið á meðal baráttumála Kolbrúnar Baldursdóttur borgarfulltrúa Flokks fólksins á síðustu misserum.
Framsókn segist líka vilja stórefla heilsueflingu fyrir eldri borgara og sömuleiðis efla „stafræna hæfni eldra fólks með áherslu á notkun rafrænna skilríkja“.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um framlögð stefnumál framboða í Reykjavík á næstu dögum.