Þorsta fólks í ítalska freyðivínið prosecco virðist vart hægt að svala. Svo mikill er hann að sífellt fleiri svæði þarf til að rækta glera-þrúguna sem ásamt tankaðferðinni gerir vínið ferskt og ávaxtaríkt og því kjörið í hverskyns kokteila.
En það voru þó ekki glaðvær hlátrasköll freyðivínsunnenda sem vöktu íbúa þorpsins Miane morgun einn í júlí árið 2019. Nei, það voru keðjusagir. Og verið var að nota þær til að fella áratuga gömul tré.
Þetta fannst þorpsbúum skjóta skökku við því aðeins nokkrum vikum fyrr hafði þeim hlotnast sá heiður að koma hæðunum trjávöxnu umhverfis þorpið á heimsminjaskrá UNESCO.
Miane er í Treviso-héraði á Ítalíu. Það hérað er í dag þekktast fyrir framleiðslu á hinu freyðandi prosecco. Það var einmitt vegna hennar sem kveikt var á keðjusögunum: Til að fella tré svo breyta mætti hæðunum sem þau huldu í vínekrur.
Íbúar í Miane eru ekki þeir einu sem finnst nóg komið. Íbúar fjórtán annarra þorpa í nágrenni UNESCO-hæðanna í Conegliano og Valdobbiadene, eins og þær eru almennt kallaðar í dag, eru á sama máli. Sumir hafa sagt rányrkju vera að eiga sér stað.
Vínekrur hafa í áratugi og jafnvel lengur sett svip sinn á svæðið. „En núna er þetta komið úr böndunum,“ hefur Guardian eftir Fabio Magro sem hefur búið þar allt sitt líf. Skógur var ruddur til að búa til vín, segir hann. Um þaulræktun sé að ræða, þéttleikinn á ekrunum mikill og skordýraeitur liggi í loftinu fyrir utan herbergisglugga barnanna hans.
Vínframleiðsla hefur dafnað sérstaklega vel á þessu svæði og fleirum á Norðaustur-Ítalíu eftir árið 2009 eftir að prosecco fékk sérstaka viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins gæðum þess til staðfestingar. Að auki hafa styrkir til vínframleiðslu í Veneto-héraði verið mjög drjúgir og meirihluti fjárins farið til framleiðslu á prosecco.
Þetta hefur orðið til þess að atvinnulíf á mörgum svæðum er orðið einhæft. Það eru bókstaflega allir á kafi í prosecco. Reyndir bændur hafa hætt hefðbundnari landbúnaði og snúið sér að vínrækt. Það á einnig við um fólk sem hefur ekki nokkurra reynslu af jarðrækt. Vínekrur skulu það vera.
Þegar gróður á stórum svæðum verður einhæfari skapast aukin hætta á hraðri útbreiðslu skordýra sem þessar tilteknu tegundar girnast. Og þá grípa vínframleiðendurnir til notkunar skordýraeiturs. Í frétt Guardian segir að 36 prósent meira af skordýraeitri sé notað í héruðunum sem framleiða prosecco nú en fyrir átta árum.
Jarðvegseyðing er einnig orðið vandamál. Niðurstaða rannsóknar sem gerð var árið 2019 var sú að um 400 milljónir kílóa af jarðvegi tapist árlega vegna framleiðslu á prosecco. Aftur er það þéttleiki á vínekrunum sem þessu veldur. Því það þarf mikið land – og alltaf meira – til að halda áfram að svala þorstanum í prosecco. Um 500 milljónir flaska af því eru framleiddar ár hvert á Ítalíu.
En þegar heilu héruðin eru farin að stóla svo mikið á eina atvinnugrein – og eina framleiðsluvöru í þeirri atvinnugrein – þá eiga þeir sem gagnrýna framleiðsluna ekki von á góðu. Corrado Pizziolo, biskup í UNESCO-bænum Vittorio Veneto, var látinn heyra það eftir að hafa hvatt opinberlega til meiri sjálfbærni í prosecco-framleiðslunni. „Við þurfum að sýna meiri ábyrgð,“ segir hann. Hæðirnar ofan við litlu þorpin séu gjöfular en þeim þurfi að sýna virðingu. Einhæf ræktun hafi neikvæð áhrif á umhverfið og ofræktin gæti átt eftir að koma í bakið á Ítölum.
Stjórnmálaleiðtogar á svæðinu gera lítið úr áhyggjum fólks vegna framleiðslunnar og segir vel fylgst með málum og að þróunin sé alls ekki stjórnlaus. Nýlegar viðbætur við vínekrurnar séu aðeins tímabundin aðgerð til að bregðast við breytilegu (árstíðabundnu) veðurfari og þá einnig til að bregðast við hinni gríðarlegu eftirspurn.