Stefnt er að því að kynna frumvarp um losun fjármagnshafta í ríkisstjórn á morgun. Upphaflega stóð til að gera það á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag, en umfangsmiklar tillögur ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum gerðu það að verkum að beðið var með það. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir einnig að einungis örfáir einstaklingar viti hvað í frumvarpinu felst. Flestir ráðherranna muni sjá það fyrst á fundi ríkisstjórnarinnar í fyrramálið. Ástæðan er sú að efni frumvarpsins getur haft áhrif á markaði og því hafa aðeins sérvaldir fengið að lesa þau yfir. Í framhaldi af ríkisstjórnarfundinum verður efni frumvarpsins kynnt stjórnarandstöðunni. Sú kynning hefði farið fram í dag ef náðst hefði að kynna frumvarpið á föstudag.
Vernda efnahagslegan stöðugleika
Fjármagnshöft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Sitjandi ríkisstjórn hefur haft sérfræðingahópa að störfum við að finna leiðir til að losa um höftin þorra þess tíma sem hún hefur setið að völdum.
Kjarninn hefur áður greint frá því hverjar meginlínur frumvarpsins eru taldar vera. Samkvæmt þeim verða gefi út skuldabréf í erlendri mynd sem og kvikar eignir færðar í langtímaeignir til að leysa út snjóhengjuna, þá tæpu 300 milljarða króna sem eftir eru af aflandskrónum sem eru í eigu annarra en slitabúa föllnu bankanna. Ekki hefur verið greint frá því í hvaða mynt skuldabréfin verða.
Auk þess er viðbúið að stöðugleikaskatti verði komið á, en hann verður lagður á eignir í íslenskum krónum sem vilja leita í aðra gjaldmiðla. Ekki hefur verið greint frá því hvort skatturinn muni leggjast einungis á slitabú föllnu bankanna eða hvort allir sem vilji yfirgefa íslenskt efnahagskerfi þurfi að greiða hann. Þá er einnig líklegt að einhverjir hvatar verði í losunarfrumvarpinu sem eigi að ýta við eigendum krónueigna þannig að þeir annað hvort fjárfesti eign sína til lengri tíma eða greiði stöðugleikaskatt. Ljóst er að þessar aðgerðir munu skila töluverðum ávinningi fyrir stjórnvöld, jafnvel hundruðum milljarða króna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur þó sagt að sá ávinningur eigi ekki að renna í framkvæmdir eða útgjaldaaukningu heldur sé aðgerðin fyrst og fremst hugsuð til að vernda efnahagslegan stöðugleika. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt sambærilega hluti opinberlega.
Í samræmi við kynnta áætlun
Sú lausn sem boðuð hefur verið er í fullu samræmi við þær áherslur sem Bjarni boðaði í greinargerð sinni til Alþingis um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta sem birt var 18. mars síðastliðinn. Þar sagði að tvær leiðir væru færar til þess að taka á þeim greiðslujafnaðarvanda sem Ísland stendur frammi fyrir við losun fjármagnshafta. Önnur er sú að eigendur innlendra eigna veiti afslátt á þeim í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Sú leið er nú kennd við stöðugleikaskatt.
Hin er sú að tryggja að kvikar eignir, þær sem eru líklegar til að vilja fara út úr íslensku hagkerfi við losun hafta, færist í langtímaeignir.