Kristinn Ágúst Friðfinnsson, prestur og sáttamiðlari, hefur lagt fram tillögu til kirkjuþings, sem hefst um helgina, þess efnis að fulltrúar verði valdir handahófskennt til þess að sitja á kirkjuþingi, sem fer með æðsta vald í málefnum Þjóðkirkjunnar.
Þetta er ansi róttæk tillaga og það viðurkennir Kristinn Ágúst sjálfur fúslega í samtali við Kjarnann, en á kirkjuþingi, sem haldið er fjórða hvert ár, eiga sæti 29 fulltrúar.
Eins og reglurnar eru í dag koma tólf fulltrúar úr hópi vígðra (þ.e. presta og annarra þjónandi innan kirkjunnar) og 17 úr hópi svokallaðra „leikmanna“. Leikmaður getur verið hver sem er í hópi almennings að því gefnu að sá hinn sami sé skírður í nafni heilagrar þrenningar, skráður í Þjóðkirkjuna, hafi náð 18 ára aldri og hafi óflekkað mannorð.
Á kirkjuþingi ársins hefur komið fram tillaga um breytingar á kjöri til kirkjuþings og segir Kristinn Ágúst, í umsögn um tillöguna, að hún sé vandlega unnin, en geri hins vegar ráð fyrir „svipuðum aðferðum við að velja fólk til kirkjuþings og áður hafa tíðkast.“ Því er Kristinn Ágúst lítt hrifinn af. Hann segist telja að kirkjuþing endurspegli „alls ekki þann hóp sem í þjóðkirkjunni er“ og bætir við að Þjóðkirkjan sé breiðfylking fólks í landinu, í henni sé fólk úr öllum stéttum, ungt, á miðjum aldri og eldri borgarar.
„Á þetta leggjum við áherslu við hátíðleg tækifæri. Reynslan sýnir hins vegar að svo dræm er kosningaþátttaka að varla er hægt að tala um lýðræðislega kosningu. Einnig má hafa í huga að þrálátur orðrómur er um að á þinginu sitji helst þröngur hópur í tengslum við oft handahófskenndan hóp sóknarnefndarfólks,“ segir Kristinn Ágúst í umsögn sinni.
Síðan leggur hann fram tillögu sína, en hún felur í sér að í hverju kjördæmi „verði fulltrúar leikmanna valdir handahófskennt með aðstoð tölvubúnaðar Þjóðskrár eða með aðstoð tölvuvers Háskóla Íslands úr hópi þeirra leikmanna, 18 ára og eldri, sem hlotið hafa skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráðir eru í íslensku þjóðkirkjuna.“
Hann leggur til að valinn verði svo stór hópur fólks í hverju kjördæmi að fólk geti beðist undan því að setjast á þingið og einnig verði hægt að undanskilja þá sem ekki hafa óflekkað mannorð. „Ég skora á þingfulltrúa að hugsa þetta mál mjög vel og opið og láta ekki stjórnast af sjálfhverfum sjónarmiðum,“ segir Kristinn Ágúst í umsögn sinni um málið.
„Þarna er verið að segja við þjóðina, þið eruð kirkjan“
Í samtali við Kjarnann segir Kristinn Ágúst að hann telji að fulltrúar á kirkjuþingi ættu að drífa sig í að gera þetta að í staðinn fyrir að það sé „einhver klíka sem kemur aftur og aftur og stjórnar þessu.“
„Þarna er verið að segja við þjóðina, þið eruð kirkjan, komiði að stjórna þessu,“ segir Kristinn um tillögu sína og bætir við að þjóðin viti í dag almennt ekkert hverjir það séu sem sitji á kirkjuþingi, sem orðin sé gríðarlega valdamikil stofnun sem sýsli með gríðarlega fjármagn og eignir.
Það sé borðleggjandi að þjóðin og meðlimir Þjóðkirkjunnar hafi meiri aðkomu að hennar æðstu stofnun, en í dag eru það einungis vígðir og svo aðal- og varamenn í kirkjusóknum landsins sem hafa kosningarétt þegar kosið er til kirkjuþings.
„Núna ræður kirkjuþing alveg yfir öllum fjárveitingum og biskup verður að leggja allt fyrir kirkjuþing. Kirkjuþing er búið að taka við stórum hluta af því sem Alþingi gerði áður fyrr og það eru svo miklir fjármunir sem renna þarna í gegn að mér finnst að þetta eigi bara að vera í höndunum á þjóðinni,“ segir Kristinn Ágúst.
Segir að Agnesi biskup hafi þótt hugmyndin skemmtileg
Spurður hvort hann hafi viðrað þessa hugmynd við marga svarar Kristinn Ágúst því neitandi, en nefnir þó að hann hafi ljáð máls á þessu við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands. „Henni fannst þetta mjög skemmtileg hugmynd,“ segir Kristinn Ágúst.
Til viðbótar segist hann hafa orðað þetta við einn eða tvo vini sína, sem hafi tekið undir að þetta væri góð hugmynd. Nú sé hann hins vegar í fyrsta sinn að prófa hugmyndina á víðari hópi, með því að setja hana fram til kirkjuþingsins.
En væntir hann þess að kirkjuþing taki hugmyndinni fagnandi? „Ég held að það finnist þetta öllum mjög sniðug hugmynd, ég spái því, en það er alltaf einhver tregða þegar kemur að því að afhenda völd,“ segir Kristinn Ágúst, sem telur að það sé eitthvað í mannlegu eðli sem geri það að verkum að það sé erfitt að sjá eftir valdinu.
Hann telur að kirkjuþing hefði gott af því að ferskan og góðan hóp inn með slembivali, það væri því hreinlega hollt. Þá segist hann ekki frá því að það myndi auka áhuga almennings á málefnum Þjóðkirkjunnar.
Vill leggja niður „tilgangslaus“ vígslubiskupaembætti
Tillagan um handahófskennt val á kirkjuþing er ekki sú eina sem Kristinn Ágúst leggur fyrir komandi kirkjuþing, heldur hefur hann einnig sent inn umsögn um þær hagræðingaaðgerðir sem liggja fyrir kirkjuþingi, en til stendur að spara 180-190 milljónir á ári með því að fækka stöðugildum presta um rúmlega tíu, eins og Kjarninn sagði frá fyrr í vikunni.
Kristinn Ágúst segir við Kjarnann að hann telji að ná mætti fram sparnaði með því að leggja niður „algjörlega tilgangslaus og innihaldslaus vígslubiskupaembætti,“ og sömuleiðis sérstök embætti prófasta í fullu starfi. Þannig mætti spara hátt í 100 milljónir króna, að hans mati, í stað þess að fækka prestsembættum eins mikið og ráðgert er.
Blaðamaður, ókunnugur því hlutverki sem vígslubiskupar gegna, spurði hvert hlutverk þeirra væri í skipuriti Þjóðkirkjunnar. „Þeir myndu telja eitthvað upp ef þeir væru spurðir, en þeir gera ekki neitt. Þeir hafa engin völd. Það var slys að þeir voru settir inn í lögin aftur árið 1990,“ segir Kristinn Ágúst, sem telur prófastakerfið hér á landi vera „sterkt og mikið“ þannig að það sé „algjör óþarfi að vera með vígslubiskupa.“
Hann telur að hagræðingartillögurnar eins og þær séu settar fram þyngi yfirbyggingu kirkjunnar og veiki undirstöðurnar, með fækkun prestsembætta um landið og í sérþjónustu.
„Þetta er bara bull og þetta er vitleysa,“ segir séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson.