Samkvæmt fundargerð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis og greinargerð til landskjörstjórnar má skýra þann mun sem var á fyrri og seinni talningu atkvæða í Borgarnesi á sunnudag með mannlegum mistökum. Þau eru hörmuð og beðist velvirðingar á þeim.
Kjarninn fékk síðdegis í dag allar fundargerðir og greinargerðir yfirkjörstjórna landsins afhentar frá landskjörstjórn. Í fundargerðinni frá Norðvesturkjördæmi er rakið að talningu atkvæða hafi lokið kl. 07:15 á sunnudagsmorgun, fundi yfirkjörstjórnar svo frestað kl. 07:35 og ákveðið að honum yrði framhaldið kl. 13.
„Meðan á fundarfrestun stóð voru kjörgögn geymd í salnum þar sem talningin fór fram en hann var læstur og öryggismyndavélar eru við inngang hans,“ segir í fundargerðinni, en eins og fram kom í bókun landskjörstjórnar í gær er litið svo á að ekki hafi borist staðfesting á því frá Norðvesturkjördæmi að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi.
Eins og fjallað hefur verið um nánast linnulaust frá því síðla á sunnudag skeikaði atkvæðum hvers einasta flokks og einnig fjölda ógildra og auðra seðla á milli talninganna tveggja í Borgarnesi og hefur það vakið upp spurningar. Komið hefur fram að kjörgögnin voru ekki geymd innsigluð eins og lög gera ráð fyrir – og lögregla hefur fengið í hendur upptökur úr öryggismyndavélum á Hótel Borgarnesi.
Enginn umboðsmaður frá Pírötum, Framsókn né Miðflokki
Auk þessa hefur Magnús Davíð Norðdahl, umboðsmaður og frambjóðandi Pírata í kjördæminu, gagnrýnt að hafa ekki verið látinn vita af endurtalningu atkvæða þegar í hana var ráðist.
Um þetta atriði segir í fundargerðinni að reynt hafi verið að hafa samband við Helga S. Þorsteinsson, sem afhent hafði yfirkjörstjórn framboðslista flokksins, en að „oddvita [yfirkjörstjórnar] hafði láðst að uppfæra lista yfir umboðsmenn flokksins en það voru tveir efstu menn á framboðslista hans.“
„Ekki náðist í Helga en skömmu síðar hafði Magnús Norðdahl samband við oddvita yfirkjörstjórnar þar sem hann hafði frétt af endurtalningunni. Magnús mætti síðan á talningarstað skömmu eftir að endurtalning hófst,“ segir í fundargerð.
Samkvæmt fundargerðinni hafði reyndar enginn umboðsmaður frá Pírötum verið á staðnum við talningu atkvæða í Borgarnesi er atkvæðin voru talin í fyrsta sinn aðfaranótt sunnudags og enginn frá Framsókn, Miðflokki né Frjálslynda lýðræðisflokknum heldur.
Þetta eru skýringar yfirkjörstjórnar á misræminu í talningunni:
„Vegna breytinga frá fyrri talningu tekur yfirkjörstjórn þetta fram:
- Heildaratkvæðum fjölgaði um tvö vegna innsláttarvillu í lok fyrri talningar
- Auðir seðlar voru í fyrri talningu taldir vera 394 en reyndust vera 382 og hafði því fækkað um 12. Skýringin á því er sú að 11 af þessum seðlum voru ógildir en höfðu fyrir mistök verið taldir með auðum seðlum. Einn seðill sem talinn hafði verið ógildur var það sannanlega ekki þar sem ekkert auðkenni var á honum nema X í kassanum fyrir framan viðkomandi listabókstaf. En það skal tekið fram að þessi atkvæðaseðill tilheyrði hvorki C né M lista.
- Atkvæðum C lista fækkaði um níu en þau höfðu mislagst í C bunka, en átta þeirra tilheyrðu D lista en eitt B lista.
- Atkvæðum D lista fjölgaði um 10 en þar af voru átta í atkvæðabunka C lista, sbr. ofanritað og tvö önnur höfðu mislagt í aðra bunka en D lista.
- Allar aðrar breytingar eru vegna þess að eitt og eitt atkvæði hafði mislagst í atkvæðabunkum.“
Í greinargerð sem formaður yfirkjörnefndar, Ingi Tryggvason, skilaði inn til landskjörstjórnar segir að hann hafi fengið símtal frá Kristínu Edwald formanni landskjörstjórnar þar sem „athygli okkar var vakin á því að það munaði litlu varðandi uppbótarsæti í Norðvestur- og Suðurkjördæmi og hvort það gæfi okkur tilefni til að skoða málið nánar.“
Kristín hefur sagt við Kjarnann að í ábendingunni hafi ekki falist nein tilmæli um gera nokkurskonar „gæðaprufu“ á talningunni sem fram fór á kosninganótt. Hún sagði þó að yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi bæri ábyrgð á talningunni, framkvæmd hennar og að sjálfsögðu því að hún sé rétt.
„Vegna ábendingarinnar var farið yfir atkvæði greidd C lista Viðreisnar,“ segir í greinargerð Inga Tryggvasonar, áður en hann heldur áfram að útskýra af hverju ráðist var í fulla endurtalningu atkvæða, sem nú er deilt um sökum þess hvernig atkvæðin voru geymd á meðan talningafólk og yfirkjörstjórn hvíldi sig eftir nóttina.
„Í fyrsta C atkvæðabunka sem ég tók upp reyndust vera átta atkvæði sem tilheyrðu D lista og eitt atkvæði sem tilheyrði B lista. Í framhaldi af því fór yfirkjörstjórn yfir öll atkvæði C lista þ.e. athugaði hvort öll önnur en fyrrgreind atkvæði D og B lista tilheyrðu ekki örugglega C lista. Svo reyndist vera en þá lá fyrir að mannleg mistök höfðu átt sér stað við talningu atkvæða undir morgun og níu atkvæði höfðu ranglega lent í atkvæðabunka C lista sem tilheyrðu öðrum framboðslistum. Með hliðsjón af þessu taldi yfirkjörstjórn ekki annað fært en að endurtelja öll atkvæði sem talin höfðu verið og yfirfara annað sem kynni að hafa leitt til þess að fyrrgreind niðurstaða um fjölda atkvæða hvers framboðslista væri ekki rétt,“ segir í greinargerð formannsins.