Þriðjudagskvöld eitt í nóvember 1981 sat danski rithöfundurinn Arne Herløv Petersen í stofunni á heimili sínu í Tryggelev á Langalandi og horfði ásamt konu sinni á kvöldfréttir danska sjónvarpsins. Hús hjónanna stendur innarlega í lokaðri götu. Inn um gluggann barst hljóð frá bíl sem fór eftir götunni og sneri svo við. Hjónin töldu að bílstjórinn hefði villst en þegar þau heyrðu að bíllinn stoppaði fyrir utan húsið stóð Arne upp úr sófanum og leit út. En í sama mund var hópur lögregluþjóna kominn inn í húsið og Arne tilkynnt að hann væri handtekinn, og eiginkonan líka. „Og fyrir hvað“ spurði Arne og svarið var „fyrir njósnir“. Þau voru úrskurðuð í þriggja daga gæsluvarðhald meðan lögreglan rannsakaði íbúðarhúsið hátt og lágt og bar út fjöldann allan af kössum með bókum og skjölum. Þessi gögn ásamt afritunum af símahlerunum og upptökum úr hlerunarútbúnaði ætlaði danska leyniþjónustan PET að nota til að sýna að Arne hefði unnið fyrir sovésku leyniþjónustuna KGB og fengið greitt fyrir, ásamt sígarettum og áfengi. Eiginkonunni, sem aldrei var nafngreind, var sleppt fljótlega eftir handtökuna.
Hér má geta þess að mánuði fyrir handtökuna hafði einum starfsmanni sovéska sendiráðsins í Kaupmannahöfn verið vísað úr landi. Hann var talinn hafa verið tengiliður sendiráðsins við Arne Herløv Petersen.
Auglýsing
Afkastamikill
Arne Herløv Petersen sem er fæddur árið 1943 lauk stúdentsprófi frá bandarískum menntaskóla og ennfremur dönsku stúdentsprófi. Síðar lauk hann magisterprófi í sagnfræði. Hann hefur frá unga aldri fengist við ritstörf, skrifað fjölmargar skáldsögur og gefið út 13 ljóðabækur. Hann hefur ennfremur þýtt fleiri en 500 bandarískar skáldsögur auk ljóðaþýðinga úr ýmsum áttum.
Átti að breiða út jákvæð viðhorf til Sovétríkjanna
Eins og áður sagði tilkynnti lögreglan Arne Herløv Petersen, við handtökuna, að hann væri grunaður um njósnir fyrir Sovétríkin.
Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn var kveðinn upp á grundvelli greinar 108 í dönsku hegningarlögunum, þessi grein er iðulega nefnd „milda njósnalagagreinin“. Ákæruvaldið sagði Arne Herløv Petersen hafa, að beiðni KGB, safnað undirskriftum og rekið áróður fyrir kjarnorkulausum Norðurlöndum. Fram kom að danska leyniþjónustan hafi um tveggja ára skeið, frá 1979 og fram að handtökunni, hlerað síma Arne Herløv Petersen. Starf hans hefði verið að breiða út jákvæðar skoðanir um sovésk sjónarmið og upplýsa sovéska diplómata í sendiráði Sovétríkjanna í Kaupmannahöfn um tiltekna danska einstaklinga og skoðanir þeirra. Arne Herløv Petersen sagðist fyrst og síðast hafa „rætt málið“ við sovéska sendiráðsmenn, eins og hann komst að orði.
Sleppt án ákæru en þó talinn sekur
Eftir að hafa setið þrjá daga í gæsluvarðhaldi og mætt fyrir dómara var Arne Herløv Petersen sleppt en jafnframt sagt að hann væri áfram grunaður. Nokkrum mánuðum síðar, í apríl 1982, tilkynnti Ole Espersen dómsmálaráðherra að fallið yrði frá ákæru en Arne Herløv Petersen væri þó áfram grunaður um njósnir. Í yfirlýsingu ráðherrans kom fram að um væri að ræða svonefnt „tiltalefrafald“ sem þýðir að viðkomandi sé talinn sekur en sæti þó ekki ákæru. Í yfirlýsingu ráðherrans kom ennfremur fram að hann teldi Arne Herløv Petersen „i prinsippet“ sekan. Áður en til handtökunnar kom hafði dómsmálaráðherra leitað álits ríkislögmanns, sem hafði í áliti sínu sagt að Arne Herløv Petersen hefði ekki skaðað danska hagsmuni og ekki gert neitt ólöglegt. Ráðherra skipaði þá leyniþjónustunni að handtaka ekki Arne Herløv Petersen, þá skipun lét leyniþjónustan sem vind um eyru þjóta og fór sínu fram.
En af hverju að telja manninn sekan en ákæra ekki? Hjá dómsmálaráðherranum toguðust tvö sjónarmið á, annarsvegar álit ríkislögmanns og hinsvegar ákvörðun leyniþjónustunnar um handtökuna og harðorðar yfirlýsingar Kjeld Olesen utanríkisráðherra um Arne Herløv Petersen.
Eftir að dómsmálaráðherrann hafði veitt áðurnefnt tiltalefrafald var Arne Herløv Petersen í sérkennilegri stöðu. Hann var talinn sekur án þess að hafa hlotið dóm og hafði því hvorki möguleika á að áfrýja né að krefjast bóta. Hann hefði gjarna viljað að mál sitt færi fyrir dómstóla, þar sem hann hefði, að eigin áliti, verið sýknaður.
Húðflúr á sálina
Í viðtali við danskt dagblað lýsti Arne Herløv Petersen því að málið hefði haft þær afleiðingar að hann væri með húðflúr á sálinni. Mannorð sitt hefði beðið hnekki, útgáfufyrirtæki sitt sagt upp samningum og lesendur, sumir hverjir, snúið við sér bakinu.
Leyniþjónustan geymir enn gögnin
Gögnin sem danska leyniþjónustan lagði hald á í nóvember 1981 eru enn í hennar vörslu. Arne Herløv Petersen hefur margoft, án árangurs, farið fram á að fá eigur sínar til baka. Árið 1998 óskaði hann eftir að fá aðgang að þeim gögnum sem leiddu til handtöku hans á sínum tíma. Níu árum síðar fékk hann send tvö skjöl og útskýringar leyniþjónustunnar á töfinni. Arne Herløv Petersen sagði í viðtali að þessi tvö skjöl væru ekki það sem hann hefði beðið um. Málið var fyrir mörgum árum rætt í þinginu en það breytti engu. Árið 2012 kröfðust dönsku rithöfundasamtökin þess, fyrir hönd Arne Herløv Petersen, að hann fengi öll gögn sín afhent. Allt kom fyrir ekki. Þess má geta að leyniþjónustan afritaði dagbækur Arne Herløv Petersen, án hans samþykkis, Ríkisskjalasafnið gerði þær aðgengilegar almenningi. Það telur hann ganga gegn höfundarréttarlögum.
Kemur til kasta landsréttar
Í maí 2019 fékk danska rithöfundasambandið samþykkta gjafsókn til málshöfðunar gegn leyniþjónustunni vegna handtökunnar og ólöglegs eftirlits með Arne Herløv Petersen og Ríkisskjalasafninu fyrir að gera dagbækurnar, sem eru uppá 1400 síður, aðgengilegar almenningi. Landsréttur tekur málið fyrir síðar á þessu ári.
Arne Herløv Petersen sem nú er að verða 79 ára býr enn í húsinu í Tryggelev á Langalandi. Í blaðaviðtali fyrir nokkru sagðist hann fyrir löngu kominn með nóg af þessu máli sem vonandi lyki sem fyrst. „Það hvarflaði ekki að mér þegar ég var handtekinn 1981 að ég yrði aðalpersónan í því sem blaðamenn hafa kallað furðulegasta njósnamál í sögu Danmerkur“.