Rafíþróttamótin tvö sem fara munu fram í Laugardalshöll í maí eru sambærileg við stærstu íþróttaviðburði í heiminum, segir Ólafur Hrafn Steinarsson formaður Rafíþróttasamtaka Íslands. Alls verða 25 útsendingadagar frá mótunum tveimur og gert er ráð fyrir því að tugir milljóna muni fylgjast með mótunum. Keppt verður í League of Legends á Mid-Season Invitational mótinu (MSI) dagana 6. til 23. maí og strax í kjölfarið hefst keppni í tölvuleiknum Valorant. Mótin eru haldin af einu stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims, Riot Games.
Ólafur segir að Riot Games eigi mikið undir því að sóttvarnir keppenda og starfsfólks séu tryggðar og að allt gangi vel fyrir sig. Hjá fyrirtækinu vinni margt starfsfólk sem komið hefur að keppnishaldi hjá stóru íþróttadeildunum í Bandaríkjunum í skugga kórónuveirufaraldursins og því sé mikil þekking til staðar um hvernig eigi að standa að framkvæmdinni.
Engar undanþágur frá sóttvörnum fyrir keppendur
Öll umgjörð mótsins er unnin í náinni samvinnu við sóttvarnayfirvöld hér á landi að sögn Ólafs. Von sé á um 450 manns alls staðar að úr heiminum vegna mótsins og munu keppendur og starfsfólk þurfa að fara hefðbundna leið við komuna til landsins. Þátttakendur munu því þurfa að skila inn neikvæðu PCR vottorði fyrir komuna til landsins, fara í tvöfalda sýnatöku og sóttkví á milli.
Búast má við því að keppendurnir muni þurfa að fylgja ströngum reglum mótshaldara er varðar ferðalög, þrátt fyrir að ferðafrelsi þeirra verði óskert að lokinni seinni sýnatöku.
„Þeir munu uppfylla í rauninni öll þau skilyrði til þess að vera frjálsir ferða sinna innanlands. Ef þetta væri hópur sem væri að koma hingað til lands og umgjörðin væri svo þannig að þau hefðu tækifæri til þess að gera hvað sem er í kringum mótið þá mættu þau fara hvert sem er og gera hvað sem er. En við búumst við því og vitum af því að það verða settar miklu strangari reglur heldur en þarf varðandi allt sem getur sett verkefnið í uppnám,“ segir Ólafur.
Keppendur munu til að mynda gangast reglulega undir skimanir, í mesta lagi megi líða 72 tímar á milli skimana.
„Þannig að það eru settar mjög miklar hömlur til að tryggja það að þegar búið er að fara í gegnum allar þessar ráðstafanir og það er búið að koma öllum hingað að þá sé ekki að berast smit úr samfélaginu inn í þennan hóp sem hugsanlega grasserar og setur keppnina í hættu.“
Engin líkamleg snerting í rafíþróttum
Á mótinu sjálfu verður keppendum og liðum skipt upp í hólf og við allan undirbúning hefur verið gengið út frá því að fjöldi í hólfi þurfi að takmarkast við tíu eða tuttugu að sögn Ólafs. Þar af leiðandi hafi þurft mörg þúsund fermetra flöt til þess að geta haldið mótið enda verða að minnsta kosti tveir metrar á milli keppenda og tíu metrar á milli liða.
„Það er kannski einn af kostunum sem við höfum í rafíþróttum að þetta krefst ekki líkamlegrar nándar og það þarf ekki líkamlega snertingu þarna á milli. Þannig að sviðið og sviðsmyndin er hönnuð með það í huga að nýta þetta svæði,“ segir Ólafur en líkt og áður segir mun mótið fara fram í Laugardalshöll.
Gerir ráð fyrir miklum áhuga erlendis frá
„Ég hef alltaf verið að reyna að koma því til skila hvað þetta er fordæmalaus landkynning fyrir Ísland,“ segir Ólafur í samhengi við þá athygli sem þetta mót fær erlendis frá. Mestur sé áhuginn á League of Legends í Kína, þar horfi jafnvel milljónir á streymi frá vinsælustu spilurunum þegar þeir eru að æfa sig heima.
Þá nefnir Ólafur auk þess bandaríska liðið sem mun taka þátt í MSI mótinu en það hefur um 20 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum. „Þeir eru að fara að vera hérna í fjórar vikur að tala um dvölina sína, að tala um Ísland, taka þátt í landkynningu og annað,“ bætir hann við.
Ef ekki væri fyrir faraldurinn þá hefði verið rökrétt að byggja leikvang fyrir mótið að sögn Ólafs. „Ef við tökum þetta allt saman þá eru þetta einhverjir 25 útsendingardagar sem við erum að fara að keyra úr Laugardalnum okkar þar sem Ísland verður í lykilhlutverki sem völlurinn fyrir þessa keppni. Það má alveg gera ráð fyrir að áhorfendur verði tugir milljóna á hverjum tímapunkti í öllum riðlakeppnunum og yfir 100 milljónir í undanúrslitum og úrslitum. Áhorfslega séð er stærðargráða viðburðarins þannig að við værum ekki að halda þetta í venjulegu árferði án þess að eyða tíu til tólf milljörðum í að byggja þjóðarleikvang sem tekur 40 til 50 þúsund manns í sæti.“