Høgni Hoydal, þingmaður og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir að hann hafi upplifað pólitískan þrýsting frá Íslandi; frá fyrirtækjum og einstaka stjórnmálamönnum og ráðherrum, þegar hann gegndi sjálfur embætti ráðherra og var að vinna að breytingum á færeyska fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Þetta kom fram í máli Hoydal í fréttaþættinum Dagur og vika í gær, en með lögunum sem færeyska stjórnin setti á sínum tíma var setti var meðal annars stefnt að því að leggja bann við erlendu eignarhaldi í fiskveiðum í Færeyjum.
Hoydal vildi ekki nefna nein nöfn á einstaka íslenskum stjórnmálamönnum sem hefðu lagst gegn fyrirætlunum Færeyinga, en sagði þó að þrýstingur hefði komið frá aðilum tengdum Sjálfstæðisflokknum, gegn því að Færeyingar útilokuðu erlenda aðila frá þátttöku í færeyskum sjávarútvegi.
Hoydal sagði pólitískan þrýsting af þessu tagi fylgja starfi stjórnmálamannsins.
Stjórn Samherja á Framherja til umræðu
Mál þessu tengd eru mikið til umræðu í Færeyjum í vikunni, eftir að annar hluti af fréttaskýringaþættinum Teir ómettiligu var tekinn til sýningar í vikunni.
Í þættinum kom meðal annars fram að Framherji, útgerðarfélag í Færeyjum sem Samherji á fjórðungshlut hlut í, hefði flutt peninga til dótturfélags Samherja á Kýpur án þess að framkvæmdastjóri færeysku útgerðarinnar, Anfinn Olsen, hefði haft vitneskju um það.
Þetta hefur valdið nokkrum kurr í færeyskum stjórnmálum, enda eiga færeysk lög að koma í veg fyrir að útlendingar fari með stjórn þarlendra sjávarútvegsfyrirtækja og það að framkvæmdastjórinn viti ekki af millifærslum til Kýpur þykir gefa vísbendingu um að hann fari hreint ekki með stjórnartaumana í öllum tilvikum.
Samkvæmt núverandi áætlunum færeysku landstjórnarinnar mega engir útlendingar eiga hlutafé í færeyskum sjávarútvegsfélögum frá og með árinu 2032.
Í viðtalinu í Degi og viku sagði Hoydal að fulltrúar frá bæði íslenskum og hollenskum fyrirtækjum sem hefðu hagsmuna að gæta í Færeyjum og jafnvel stjórnmálamenn frá þessum löndum hefðu hitt á hann á ráðstefnum þar sem hann var að fjalla um þessi mál, t.d. hér á landi og víðar og beinlínis sagt að þetta mættu Færeyingar ekki gera.
Hagsmunaverðir væru alltumlykjandi í kringum stjórnmálamenn, fyrir hönd peningavaldsins. „Þetta er big business,“ sagði Hoydal.
Núverandi ráðherra kannast ekki við viðlíka þrýsting
Eftir viðtalið við Hoydal var skipt beint yfir í viðtal við Jacob Vestergaard, núverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, sem sagðist sjálfur ekki hafa upplifað þrýsting af því tagi sem Hoydal tiltók.
Einnig gaf hann lítið fyrir það sem fram kom í fréttaskýringarþættinum Teir ómettiligu — að Samherji liti á Framherja í Færeyjum sem dótturfélag í sínum innanhússkjölum. Hann sagðist telja eignarhaldið á Framherja í samræmi við lög og að Anfinnur Olsen og færeyskir viðskiptafélagar hans stjórnuðu fyrirtækinu.
Það sem rætt væri um á Íslandi og það sem Íslendingar gerðu væri honum einfaldlega algjörlega óviðkomandi.