Sjúklingur lést á gjörgæsludeild Landspítala á undanförnum sólarhring vegna COVID-19. Þetta er fyrsta andlátið sem rakið er til sjúkdómsins hér á landi síðan í maímánuði. Hinn látni var á sjötugsaldri.
Heildarfjöldi þeirra sem látist hafa vegna kórónuveirufaraldursins á Íslandi er nú kominn upp í 31. Samkvæmt upplýsingum á tölfræðivef yfirvalda liggja átjan manns nú inni á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af fjórir á gjörgæsludeild.
Alls greindust 103 smit undanfarinn sólarhring, þar af 25 hjá óbólusettum einstaklingum.
Langflestir þeirra alls 930 einstaklinga sem eru í einangrun vegna veirusmits hér á landi eru undir 50 ára aldri, en alls eru níu manns yfir áttræðu í einangrun og 27 einstaklingar á áttræðisaldri.