Áætlað er að fyrstu tölur í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík á laugardag verði opinberar á miðnætti, aðrar tölur kl. 3 og þær þriðju og síðustu klukkan 4.30 um nóttina. Atkvæði þeirra sem mæta fyrri hluta dags á kjörstað verða talin fyrst og utankjörfundaratkvæði síðust.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði yfirkjörstjórnar Reykjavíkur um helstu tímasetningar vegna talningar í kosningunum. Minnisblaðið var lagt fyrir fund kjörstjórnarinnar í gær.
Kosið verður á 23 stöðum í Reykjavík og að venju lýkur kjörfundi klukkan 22. Þá þegar verður fjöldi kjörkassa kominn í Laugardalshöllina þar sem talning atkvæða fer fram. Talningin getur því hafist á sama tíma og kjörstöðum lokar sem gerist með því að oddviti yfirkjörstjórnar rýfur innsiglin á talningarstaðnum í Höllinni. Streymt verður beint af talningunni á vef Reykjavíkurborgar.
Í minnisblaðinu er gerð ítarleg grein fyrir fyrirkomulaginu. Þar segir að undirbúningur fyrir talningu atkvæða hefjist í Laugardalshöll kl. 17.00 á kjördag. Á milli 17.30-17.50 tekur yfirkjörstjórn á móti 96 atkvæðakössum sem fluttir verða frá kjörstöðum. Klukkan 18.00 verður talningarstaður í Laugardalshöll innsiglaður og læstur en þar fer fram afstemming og flokkun atkvæða til að undirbúa talningu af hálfu yfirkjörstjórnar að viðstöddum umboðsmönnum framboða. Klukkan 22.00 rýfur oddviti yfirkjörstjórnar innsiglin og opnar talningarstað. Þá getur talning atkvæða hafist.
Fyrsta, önnur og þriðja umferð
Í fyrstu umferð verða talin öll kjörfundaatkvæði fyrri hluta dags. Áætlað er að henni ljúki um 23.40 og að fyrstu tölur í Reykjavík liggi fyrir og verði gerðar opinberar á miðnætti. Önnur umferð talningar hefst um leið og seinni kjörkassar berast í Laugardalshöll frá öllum 23 kjörstöðunum í Reykjavík að kjörfundi loknum.
Áætlað er að lokið verði við að telja öll kjörfundaratkvæði um 02.50 og að aðrar tölur í Reykjavík liggi fyrir og verði gerðar opinberar klukkan 3. Í þriðju umferð verða utankjörfundaratkvæði talin. Áætlað er að lokið verði við að telja öll atkvæði um kl. 4 og er áætlað að lokatölur í Reykjavik liggi fyrir og verði gerðar opinberar kl. 4.30.
Ellefu framboðslistar eru í kjöri í Reykjavík. Kjörstaðir opna kl. 9 á laugardagsmorgun og loka líkt og fyrr segir kl. 22.