Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að viðskiptaþvinganir sem vesturveldin hafi hingað til beitt til að reyna að fá Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að hætta stríðsrekstri í Úkraínu engu hafa skilað. „Ég er farinn að halda að þeir sem segi gagnslaust að ræða við Pútín hafa rétt fyrir sér, það er aðeins tímaeyðsla,“ segir forsætisráðherrann í viðtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera. Markmið Pútíns virðist vera það að „tortíma mótspyrnu Úkraínumanna, hernema landið og afhenda svo stjórn hliðhollri sér valdataumana“.
Draghi og Pútín ræddust við í síma 30. mars. Í símtalinu segist Draghi hafa reynt að sannfæra Pútín um að sættast á vopnahlé í Úkraínu.
„Ég spurði hann: Hvenær ætlar þú að hitta Zelensky [Úkraínuforseta]? Aðeins þið tveir getið leyst hnútinn,“ segist Draghi hafa sagt við Pútín. Hann segir Pútín hafa svarað: „Núna er ekki rétti tíminn.“
Og þegar Draghi ítrekaði mikilvægi vopnahlés endurtók Pútín orð sín: „Nei, núna er ekki rétti tíminn.“
Í viðtalinu við Il Corriere della Sera var forsætisráðherrann spurður hvernig hægt væri að hjálpa þjóð sem væri verið að ráðast á. „Viðskiptaþvinganir eru mikilvægar til að veikja árásarmanninn en það stoppar heri hans ekki strax. Til að gera það þurfum við að hjálpa Úkraínumönnum beint – og það er það sem við erum að gera.“
Draghi vill draga úr þörf Ítalíu á viðskiptum við Rússland m.a. með því að kaupa gas af fleirum og hefur nú samið við Alsír um kaup á umtalsverðu magni. Talið er að um 40 prósent alls jarðgass sem Ítalir nota sé keypt frá Rússum.
Svipaða sögu er að segja í mörgum öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Þessu verður að breyta, segir Draghi.
„Evrópa heldur áfram að fjármagna Rússland með því að kaupa olíu og gas og fleira á verði sem er úr öllu sögulegu samhengi og úr tengslum við framleiðslukostnaðinn.“
ESB háð Rússum um gas
Alþjóða orkustofnunin (International Engergy Agency) hefur lagt fram nokkrar tillögur um hvernig Evrópusambandið getur dregið úr því að þurfa að stóla á gaskaup frá Rússum. Meðal tillagna er að hætta við nýja orkusamninga við Rússland, að kaupa gas frekar af öðrum ríkjum, að flýta fyrir uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa og auka framleiðslu í kjarnorkuverum, svo dæmi séu tekin.
Ítölsk stjórnvöld hafa að sögn Draghi þegar ráðist í auknar fjárfestingar í endurnýjanlegri orkuvinnslu og fleiri aðgerðir eru í farvatninu.
En allt þetta tekur tíma. Og á meðan er fólk að deyja í Úkraínu vegna stríðsins. Í nótt hefur rússneski herinn gert ákafar árásir á margar borgir. Fjórum loftskeytum var skotið á borgina Lviv í morgun, borg sem er rétt við landamærin að Póllandi. Stöðugar loftárásir hafa einnig verið gerðar í nágrenni hafnarborgarinnar Odesa og sprengjur hafa sömuleiðis fallið í Kharkiv. Ómögulegt er að segja hversu mannfallið í nótt var mikið.
Enn er borgin Mariupol í herkví þótt Úkraínumenn hafi ekki gefist upp líkt og Rússar kröfðust að þeir myndu gera ekki seinna en í gær. Borgin hefur verið lögð nánast í rúst. Þar er þó enn innlyksa fjöldi fólks.
Áfram eru gerðar árásir í austurhluta Úkraínu, á hinum svokallaða Donbas-svæði. Úkraínsk yfirvöld hafa varað íbúa á svæðinu við því að árásirnar eigi eftir að verða harðari á næstu dögum og hafa beðið þá um að flýja þar sem „grimmileg“ árás Rússa sé yfirvofandi.