Sögulegt samkomulag Bandaríkjanna og Íran kann að vera í hættu ef repúblikanar á Bandaríkjaþingi samþykkja ekki tillögur Obama bandaríkjaforseta. Íranir munu draga úr kjarnorkuáætlunum sínum verulega gegn því að Bandaríkin létta á viðskiptaþvingunum. Þetta er meðal þess sem er að gerast í heiminum í dag.
Meðal kaþólskra Filipseyinga eru páskar mikilvæg hátíð. Ár hvert flykkjast innlendir og erlendir ferðamenn til San Pedro Cutud til að fylgjast með trúræknum einstaklingum ganga í gegnum sömu þjáningar og Jesús er sagður hafa upplifað í Biblíunni. Bak þeirra er blóðgað með svipuhöggum, þeir bera krossa sína og láta síðan krossfesta sig af mönnum klæddir eins og rómverskir hermenn. Kaþólska kirkjan fellst ekki á þessar venjur og minnir á að svona aðferðir grafi undan raunverulegri merkingu páskahátíðarinnar.
Sádí-Arabar hafa undanfarna viku leitt loftárásir bandamanna gegn uppreisnarmönnum í Jemen. Hútí-fylking síta og stuðningsmenn Ali Abdulla Saleh, fyrrverandi forseta Jemen, hafa gert harðar atlögur gegn stjórnarhernum í Jemen undanfarnar vikur. Loftárásirnar beinast helst að mönnuðum búðum Hútí-manna í austurhluta Sana‘a, stærstu borgarinnar í Jemen. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu telja hugsanlegt að Saleh búi yfir kjarnorkuvopnum og hann sé líklegur til alls.
Harry Potter-sýning hefur verið opnuð í Cite du Cinema í París. Á sýningunni fá gestir að upplifa myrkan heim galdradrengsins úr bókum J.K. Rowling og sjá áróður galdramálaráðuneytisins gegn ástvinum Harrys. Hér sést breski leikarinn Gary Oldman í gervi Siriusar Black, sem ráðuneytið ellti eftir að hann slapp úr hinu alræmda fangelsi í Azkaban.
Barack Obama, Bandaríkjaforseta, bíður erfitt verkefni á næstu dögum við að sannfæra Bandaríkjaþing um að samþykkja nýundirritað kjarnorkusamkomulag við Íran. Gegn því að Íranir takmarki kjarnorkuáætlanir sínar gríðarlega hafa Bandaríkin samþykkt að slaka á viðskiptaþvingunum. Repúblikanar í þinginu, og einhverjir demókratar, krefjast þess hins vegar að geta haft áhrif á samkomulagið sem undirritað hefur verið.
Leiðtogar stærstu framboðanna í bresku þingkosningunum sem fram fara í vor mættust í kappræðum á ITV-sjónvarpsstöðinni á fimmtudag. Auk stærstu framboðanna á landsvísu var fulltrúum skoska þjóðarflokksins og velska sjálfstæðisflokksins boðið að taka þátt. Enginn þótti hafa skarað sérstaklega framúr í kappræðunum eins og sást vel í þeim könnunum sem gerðar voru um frammistöðu fulltrúanna. Stjórnmálaskýrendur voru þó flestir á einu máli um að hin skoska Nicola Sturgeon hafi staðið sig best. Kosningar fara fram 9. maí í Bretlandi.