„Þetta var auðvitað mjög erfitt fyrst – að taka að sér öll þessi verkefni vegna þess að aðstæður eru mjög óvenjulegar. Þó er ég mjög ánægð með það að fá að þjónusta félagsmenn Eflingar en meira en helmingur 27.000 félagsmanna Eflingar er af erlendu bergi brotinn.“
Þetta segir Agnieszka Ewa Ziólkowska, formaður Eflingar, þegar hún er spurð hvernig henni líði með það að taka óvænt við keflinu sem formaður en hún var í ítarlegu viðtali við Kjarnann um helgina.
Hún segist enn fremur vera ánægð með að formaður Eflingar sé nú aðfluttur vegna þess að þá hafi fólk í þeim hóp fulltrúa úr sínum röðum.
Skilur íslensku
Agnieszka gefur lítið fyrir umræðu á samfélagsmiðlum um íslenskukunnáttu hennar.
„Í fyrsta lagi vinna útlendingar á Íslandi flestir í láglaunastörfum – og vinna innan um aðra útlendinga sem einnig tala enga íslensku. Í öðru lagi skil ég íslensku og ég trúi því að það sé mjög mikilvægt að láta íslensk samfélag gera sér grein fyrir því að útlendingar eru hluti af þessu samfélagi. Við verðum að eiga rétt á því að taka þátt í samfélaginu – sama hversu lengi við dveljum hér. Þrátt fyrir að við tölum ekki fullkomna íslensku þá eigum við skilið að vera þátttakendur hér.“
Hún telur að þetta sé ekki og verði ekki vandamál í hennar störfum.
Mikilvægt að halda stéttarfélaginu gangandi
Þegar Agnieszka er spurð út í það hverjar áherslur Eflingar eru nú varðandi komandi kjarabaráttu þá segir hún að þau hafi sömu stefnumál og Sólveig Anna hafði og einbeiti sér að láglaunafólki. „Við viljum halda áfram baráttunni fyrir þetta fólk.“
Hún segist þannig ætla að vera með sömu áherslumál og fyrrum formaður. „Ég sé til þess þessa dagana að stéttarfélagið nái að starfa með eðlilegum hætti með öllum þeim verkefnum sem því fylgir. Við einblínum á að laga þau vandamál sem upp hafa komið og passa upp á að félagsmenn okkar fái þá þjónustu sem þeir þurfa.“
Hvað er mikilvægt að þínu mati að leggja áherslu á núna?
„Ég hef verið félagsmaður í Eflingu megnið af þeim tíma sem ég hef búið á Íslandi. Ég veit hversu mikilvægt það er að félagsmenn fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið. Ég sé formannsembættið sem sameiningartákn fyrir félagsmenn. Efling verður að geta staðið með þeim þegar þeir þurfa á að halda vegna þess að láglaunafólk hefur ekki tök á að ráða lögfræðing til að berjast fyrir rétti sínum. Og trúðu mér, atvinnurekendur ganga stundum allt of langt. Svo þess vegna er svo mikilvægt að halda stéttarfélaginu gangandi – það er okkar markmið,“ segir hún.
Hægt er að lesa viðtalið við Agnieszka hér.