Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hefur innkallað 1,4 milljónir bíla vegna galla í vélbúnaði. Gallinn er talinn alvarlegur, en hann tengist olíubúnaði í bílunum. Leki getur komið upp, sem getur gert bílana alelda á skömmum tíma.
Fyrirtækið hefur áður þurft að innkalla bíla vegna þessa galla, og nær innköllunin nú til bíla sem komu á götuna á árunum 1997 til 2004.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að fyrri innkallanir, á árunum 2007 og 2009, hafi ekki dugað til að laga þá galla sem í bílunum voru, og hefur eldur þegar komið upp í ríflega 1.300 ökutækjum, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.
Tegundirnar sem hafa nú verið innkallaðar eru nær allar á götunni í Bandaríkjunum. Um er að ræða Pontiac Grand Prix og Buick Regal, og einnig þrjár tegundir Chevrolet bifreiða.