Í nýframlagðri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að framlög til fjölmiðlunar úr ríkissjóði hækki ár frá ári út árið 2025, en standi svo í stað í krónum talið á árinu 2026. Hækkunin á næsta ári er upp á tæplega fimm prósent, árið eftir verður hún um fjögur prósent og svo þrjú prósent milli áranna 2024 og 2025. Árið 2026 er gert ráð fyrir að framlög úr ríkissjóði til fjölmiðlunar verði fimm milljónum krónum lægri en árið áður á verðlagi ársins 2021. Þegar búið er að taka tillit til þess að verðlagsbreytingar munu óumflýjanlega verða á tímabilinu liggur fyrir að framlög til málaflokksins verða skert á því tímabili sem fjármálaáætlun nær yfir.
Á fjárlögum ársins 2021 var 5.138 milljónum króna veitt til fjölmiðlunar. Sú upphæð skiptist þannig að RÚV fær 4.746 milljónir króna og 392 milljónir króna voru áætlaðar í styrkjagreiðslur til einkarekinna fjölmiðla. Frumvarp um styrkjagreiðslurnar hefur verið lagt fram og er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Heimildir Kjarnans herma að væntingar séu til þess að frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni fljótlega, og geti þá farið til annarrar umræðu í þinginu.
Áætlunin gerir ráð fyrir styrkjunum
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á mánudag, er gert ráð fyrir að framlögin verði 5.390 milljónir króna á næsta ári, eða tæplega fimm prósent hærri en í ár. Þau hækka síðan ár frá ári fram til ársins 2025, þótt hlutfallslega hægi á hækkuninni og heilt yfir sé hún fyrst og síðast líkleg til að ná yfir verðlagsbreytingar, og feli þar með ekki í sér raunhækkun. Árið 2026 verður svo breyting á þegar framlögin eru áætlum 5.991 milljón króna, eða fimm milljónum króna lægri en árið áður.
Margra ára ferli
Stuðningsgreiðslur úr ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla hafa verið í deiglunni árum saman. Segja má að ferlið hafa hafist í lok árs 2016 þegar sett var saman nefnd til að móta tillögur um styrkingu rekstrarumhverfis einkarekinna fjölmiðla. Drög að frumvarpi um þær voru kynnt af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir tveimur árum síðan en komust hins vegar ekki á dagskrá vorþings þess árs vegna mikillar andstöðu við málið hjá hluta þingflokks Sjálfstæðisflokks.
Í kjölfarið voru gerðar breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við þá andstöðu. Í þeim fólst aðallega að stærstu fjölmiðlar landsins myndu fá hærri styrkjagreiðslur en minni fjölmiðlar myndu skerðast á móti.
Nýtt frumvarp, sem átti að leggjast fram í september 2019, lét þó á sér standa. Lilja mælti á endanum ekki fyrir frumvarpi um að lögfesta slíkt styrkjakerfi fyrr en í desember 2019. Frumvarpið var hins vegar svæft í nefnd, aftur að mestu fyrir tilstilli þingmanna Sjálfstæðisflokks, og fékk ekki afgreiðslu.
Þess í stað var ákveðið að taka þá fjármuni sem búið var að heita í styrkina og breyta þeim í einskiptis neyðarstyrk vegna COVID-19. Lilju var falið að útfæra greiðslu þeirra í reglugerð. Það gerði hún í byrjun júlí.
Í reglugerðinni var sú breyting gerð á upprunalegri úthlutunaraðgerð að sú upphæð sem stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins gátu sótt í ríkissjóð var tvöfölduð, úr 50 milljónum króna í 100 milljónir króna.
Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Það frumvarp sem nú er til umfjöllunar á þingi er í anda reglugerðarinnar.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum.