Rússland gæti stuðst við notkun rafmynta til þess að draga úr neikvæðum áhrifum nýlegra efnahagsþvingana vegna innrásarinnar í Úkraínu með hjálp rafmynta. Stórir rafmyntamarkaðir hafa ákveðið að loka ekki á rússneska reikninga, en sérfræðingar telja það þó ekki líklegt að Rússar muni geta stundað umfangsmikil milliríkjaviðskipti með hjálp þeirra.
Rafmyntamarkaðir loka ekki á Rússa
Rafmyntir hafa verið nefndar sem möguleg undankomuleið rússneskra fjárfesta frá efnahagsþvingunum Vesturveldanna, en mörgum rússneskum bönkum hefur nú verið hent úr alþjóðlega SWIFT-greiðslukerfinu, auk þess sem eignir rússneskra auðmanna hafa verið frystar víða í Evrópu og Bandaríkjunum.
Mykhailo Fedorov, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, kallaði eftir því með Twitter-færslu á sunnudaginn að allir helstu rafmyntamarkaðir ættu að loka á viðskipti við alla rússneska notendur þeirra. Færsluna má sjá hér að neðan.
I'm asking all major crypto exchanges to block addresses of Russian users.
— Mykhailo Fedorov (@FedorovMykhailo) February 27, 2022
It's crucial to freeze not only the addresses linked to Russian and Belarusian politicians, but also to sabotage ordinary users.
Stærsti rafmyntamarkaður heims, Binance, hefur svarað þessu ákalli neitandi og segist ekki vilja frysta viðskipti hjá milljónum af eigin viðskiptavinum einhliða. Samkvæmt frétt CNBC segist Binance þó fylgja yfirstandandi efnahagsþvingunum Vesturlanda gegn völdum rússneskum auðmönnum. Einnig bætir markaðurinn við að hann muni vera samstíga alþjóðasamfélaginu og framfylgja öllum efnahagsþvingunum sem það stígur fram með.
Ólíklegur bjargvættur
Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar telja sérfræðingar sem fréttastofa NBC ræddi við það vera ólíklegt að rafmyntir verði notaðar í miklu mæli til að koma háum fjárhæðum til og frá landinu. Samkvæmt þeim hefur eftirlit með rafmyntum stóraukist, þannig að auðveldara sé að fylgjast með grunsamlegum millifærslum milli landa.
Starfsmenn bandaríska fjármálaráðuneytisins svöruðu á svipuðum nótum í frétt Politico um málið, en þar sögðu þeir að ráðuneytið hefði ekki miklar áhyggjur af viðamiklum peningaþvætti rússneskra yfirvalda í gegnum rafmyntir, þar sem stór viðskipti yrðu sýnileg á alþjóðlegum mörkuðum.
Aðrar þjóðir sem hafa orðið fyrir miklum viðskiptaþvingunum, líkt og Íran og Norður-Kórea, hafa leitað til rafmynta til að stunda milliríkjaviðskipti og fela eignir auðmanna. Samkvæmt viðmælendum Al Jazeera yrði þó erfitt fyrir Rússland að feta í fótspor þeirra, þar sem fjármálakerfið þar er mun tengdara alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Aðrar leiðir mögulegar
Aftur á móti gætu rússnesk stjórnvöld notað rafmyntir á ýmsan hátt til að milda efnahagshöggið sem viðskiptaþvinganirnar hafa veitt þeim. Lokist á gasútflutning til Evrópu gæti landið til dæmis notað orkuframleiðslu sína til að stórauka rafmyntagröft, en þannig gætu útflutningstekjur landsins aukist.
Samkvæmt Al Jazeera yrðu tekjurnar af þeim útflutningi þó einungis agnarsmár hluti af tekjufallinu sem viðskiptabann á jarðgasi og olíu myndi fela í sér.
Önnur leið til að komast hjá efnahagsþvingunum væri með svokallaðri „rafrúblu,“ sem er rafeyrir sem Seðlabanki Rússlands hefur tilkynnt að sé í vinnslu. Samkvæmt umfjöllun New York Times um málið gæti slíkur gjaldmiðill aukið sjálfstæði Rússlands gagnvart Bandaríkjunum, þar sem Rússar gætu þá átt viðskipti við önnur lönd án þess að fara í gegnum alþjóðlega bankakerfið.