Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur lagt fram breytingartillögu við tillögu stjórnar Eimskips um kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn félagsins. Í tillögunni er lagt til að nýtingarverð kaupréttarsamninga verði skilgreint út frá meðalgengi hlutabréfa í félaginu síðustu tíu viðskiptadaga eins og það er skráð á Nasdaq Iceland í íslenskum krónum fyrir úthlutunardag. Þá skuli nýtingarverð vera leiðrétt til lækkunar fyrir framtíðar arðgreiðslum og samsvarandi úthlutun til hluthafa af eignum félagsins, krónu fyrir krónu. Nýtingarverð skuli einnig vera leiðrétt með þriggja prósenta ársvöxtum ofan á áhættulausa vexti fram að nýtingardegi.
Gildi er þriðji stærsti eigandi Eimskips með 10,45 prósent hlut. Samherji Holding er stærsti eigandinn með 32,79 prósent hlut og Baldvin Þorsteinsson, ein helsti eigandi Samherja hf., er sem stendur stjórnarformaður Eimskips. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti eigandinn með 11,94 prósent eignarhlut. Birta, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og lífeyrissjóðurinn stapi eiga svo samtals 13,96 prósent. Samanlagt eiga þessir fimm lífeyrissjóðir því 36,35 prósent hlut í Eimskip, eða meira en Samherji Holding.
Ekki á að umbuna stjórnendum nema arðsemi sé viðunandi
Stjórn Eimskips hefur lagt til að komið verði á fót kaupréttarkerfi fyrir forstjóra, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn félagsins sem ætlað er að tengja hagsmuni rétthafa við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess. Í tillögu stjórnar er gert er ráð fyrir því að nýtingarverð kaupréttarsamninga hækki um þrjú prósent árlega. Þá er gert ráð fyrir að forstjóra og æðstu stjórnendum verði gert skylt að halda eftir ákveðnum fjölda hluta þar til ákveðnu margfeldi af grunnlaunum er náð, þegar skattar hafa verið dregnir frá, allt til starfsloka hjá félaginu.
Breytingartillagan er auk þess eðlileg að mati sjóðsins í ljósi núverandi heildarlauna stjórnenda félagsins og annarra möguleika þeirra á árangurstengdum greiðslum. „Ætti þessi viðbót jafnframt að mati sjóðsins að leiða til þess að minni þörf verði á almennum hækkunum á launum stjórnenda horft fram í tímann. Að lokum vill Gildi benda á að núverandi markaðsaðstæður geta verið erfiður tímapunktur til innleiðingar á kaupréttarkerfum þannig að þau þjóni tilgangi sínum og tengi raunverulega saman langtímahagsmuni stjórnenda og hluthafa.“
Gildi lagði einnig fram breytingartillögu við tillögu stjórnar Símans um kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn félagsins. Sjóðurinn var einnig einn þeirra lífeyrissjóða sem lagðist gegn tillögu stjórnar um kaupauka- og kaupréttarkerfi hjá Icelandair Group á aðalfundi þess félags í síðustu viku. Sú tillaga var samþykkt með naumum meirihluta.