Samkvæmt gildandi starfsreglum stjórnar Eimskips getur stjórnarformaður félagsins, sem í dag er Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja í Evrópu, að eigin frumkvæði og án sérstakrar ástæðu kallað til einn varamann til viðbótar við þá fimm stjórnarmenn sem ætla sér að sitja stjórnarfund.
Sá varamaður hefur, samkvæmt reglunum, rétt til þess að leggja fram tillögur og taka til máls en er ekki með atkvæðisrétt.
Þessu ákvæði vill Gildi lífeyrissjóður, þriðji stærsti eigandi félagsins með 14,11 prósent eignarhlut, breyta. Í greinargerð sem fylgir tillögu til ályktunar sem verður á dagskrá komandi aðalfundar Eimskips, sem fram fer 25. mars næstkomandi, segir að ákveðið sé „óvenjulegt og færir stjórnarformanni hverju sinni heldur mikið vald til þess að ákveða einhliða mætingu varamanns á stjórnarfund. Eðlilegra er að varamaður sé kallaður til þegar aðalmaður getur af einhverjum ástæðum ekki tekið þátt í stjórnarstörfum.“
Varamennirnir tveir sem stjórnarformaðurinn getur að óbreyttu kallað inn á fundinn verða áfram þeir sömu, hin færeyska Jóhanna á Bergi, sem er forstjóri Atlantic Airways, og Óskar Magnússon, stjórnarmaður í stærsta hluthafanum í Eimskip, Samherja Holding. Það félag á alls 27,36 prósent hlut í Eimskip.