Alls voru rúm 70 prósent af reglulegum gjörgæslurýmum hérlendis undirlögð af COVID-19 sjúklingum á hápunkti faraldursins, en sambærilegt hlutfall var helmingi minna í Noregi, Danmörku og Finnlandi. Fjöldi gjörgæslurýma á hvern íbúa á Íslandi er einnig minni en á öllum hinum Norðurlöndunum, en Landspítalinn segir að skortur á sérmenntuðu starfsfólki standi helst í vegi fyrir að þeim sé fjölgað.
Fæst á Norðurlöndum
Í samtali við Kjarnann segir Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri á skrifstofu forstjóra Landspítalans, að fjöldi gjörgæslurýma sé sveigjanlegur eftir atvikum. Venjulega séu rýmin 14 talsins, en hægt væri að fjölga þeim tímabundið þegar mikið álag er á spítalanum. Á sjúkrahúsinu á Akureyri eru svo allajafna þrjú rými, hægt væri að fjölga upp í fimm þegar mikið liggur á.
Samtals eru því regluleg gjörgæslurými hérlendis 17 talsins, eða um 4,5 á hverja 100 þúsund íbúa. Þetta er lægra hlutfall en á öllum hinum Norðurlöndunum, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Í Finnlandi og Noregi eru í kringum fimm gjörgæslurými á hverja 100 þúsund íbúa, en í Danmörku og Svíþjóð eru þau sjö talsins, sem er helmingi meira en fjöldinn hérlendis.
Svipað álag og í Svíþjóð
Vegna lítils fjölda gjörgæslurýma hefur mikið álag verið á heilbrigðiskerfið hérlendis í heimsfaraldrinum, þrátt fyrir að fjöldi smita hafi verið tiltölulega lítill. Alls voru 12 gjörgæslurými undirlögð af COVID-19 sjúklingum í fyrstu bylgju faraldursins, en það samsvarar 71 prósent af reglulegum gjörgæslurýmum.
Þetta er mun hærra álag en mældist á hápunkti faraldursins í Noregi, Danmörku og Finnlandi, en þar var hlutfall COVID-19 sjúklinga af reglulegum gjörgæslurýmum aldrei hærra en 35 prósent. Álagið var þó sambærilegt í Svíþjóð, þar sem fjöldi gjörgæslurýma vegna COVID-19 var á tímapunkti 77 prósent af heildarfjölda reglulegra gjörgæslurýma í landinu.
Hjúkrunarfræðingar eins og úraníum
Samkvæmt Önnu Sigrúnu þarf fjögur og hálft starfsígildi til að manna eitt gjörgæslurými. Enn fremur þurfa hjúkrunarfræðingar að hafa sérmenntun til að geta unnið á deildinni, en slík menntun tekur að minnsta kosti tvö ár.
Hún segir að hægt sé að fjölga gjörgæslurýmum tímabundið með því að fá mannskap frá skurðstofum Landspítala og svæfingardeildum, en slík tilfærsla leiði hins vegar til að skurðaðgerðum sé frestað. Landspítalinn hafi svo fengið aðstoð frá hjúkrunarfæðingum frá Klíníkinni í Ármúla sem hjálpaði til, en einnig náði spítalinn að fá til sín fyrrum starfsmenn með viðeigandi hæfni, tímabundið.
Þó bætir hún við að Landspítalinn stefni að því að fjölga reglulegum gjörgæslurýmum sínum úr 14 í 15 á næstunni, auk þess sem fjórum hágæslurýmum, þar sem sjúklingar þurfa ekki jafnmikla ummönnun, verður bætt við á næsta ári.
Anna Sigrún segir að flöskuhálsinn í þessu öllu saman sé lítill fjöldi sérmenntaðra hjúkrunarfræðinga. „Hjúkrunarfræðingar eru eins og úraníum, bara mjög takmörkuð auðlind,“ bætir hún við.