Ritstjórnargrein í kínverskum ríkisvefmiðli hefur vakið hörð viðbrögð kínverskra netverja undanfarna daga, en í henni var gefið í skyn að það væri skylda meðlima í kínverska kommúnistaflokknum að eignast þrjú börn, til þess að stemma stigu við öldrun kínversku þjóðarinnar og fallandi fæðingartíðni.
Sagt er frá þessu á vefjum bæði Guardian og Bloomberg auk fleiri miðla, en ritstjórnargreinina umdeildu, sem birtist í vefmiðlinum China Reports Network, má hvergi finna lengur og virðist henni hafa verið eytt eftir að umræður um hana komust í hámæli á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo.
Í greininni sagði að hver einn og einasti meðlimur kínverska kommúnistaflokksins, en þeir eru í heildina um 95 milljónir talsins, ætti að „axla ábyrgð og skyldur sínar gagnvart fólksfjölgun landsins og fara eftir þriggja barna stefnunni“, en fyrr á árinu opnuðu kínversk stjórnvöld á það með lagasetningu að pör eða hjón mættu eignast þrjú börn.
„Enginn flokksfélagi ætti að nota nokkra afsökun, hlutlæga eða persónulega, til að giftast ekki eða eiga börn, né geta þeir notað neinar afsakanir til að eiga einungis eitt eða tvö börn,“ sagði í greininni samkvæmt endursögn Guardian, upp úr skjáskotum frá kínverskum samfélagsmiðlanotendum.
Aldurssamsetning þjóðarinnar að verða vandamál
Fæðingartíðni í Kína var sú lægsta á síðasta ári allt frá árinu 1978, en einungis 8,5 börn fæddust á hverja 1.000 íbúa landsins. Margir samverkandi þættir útskýra þessa stöðu, en í Kína máttu pör einungis eiga eitt barn fram til ársins 2016, auk þess sem kostnaður við húsnæði og aðrar nauðsynjar daglegs lífs, sér í lagi í stærri borgum landsins, hefur vaxið mjög á undanförnum árum.
Þetta, auk aukinnar þátttöku kvenna á vinnumarkaði og mikilla krafna sem gerðar eru til starfsmanna í kínversku atvinnulífi, hefur allt saman haft þær afleiðingar að hlutfall Kínverja sem eru á aldrinum 15-64 ára af þjóðinni í heild hefur farið lækkandi á hverju ári frá árinu 2010, samkvæmt gögnum frá Alþjóðabankanum. Vinnandi höndum fækkar.
Af þessum sökum ákváðu stjórnvöld sem áður segir að heimila fólki að eignast þrjú börn, auk þess sem stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið aukinn. Þessar aðgerðir hafa þó ekki haft mikil áhrif, enn sem komið er.
Samkvæmt frásögnum Bloomberg og Guardian af umræðum kínverskra netverja féll ritstjórnargreinin í China Reports Network ekki í kramið hjá þeim. Sumir lýstu því yfir að það væri til þess fallið að rýra traust á kommúnistaflokknum og stjórnvöldum, ef ýta ætti skilaboðum af þessu tagi að fólki.
„Þrátt fyrir þriggja barna stefnuna hefur fullt af fólki ekki aðstæður, getu, peninga eða tíma til þess að sjá um börn, sérstaklega konur, sem þurfa að fara snemma heim, og þetta mun draga úr vilja fyrirtækja til að ráða konur!“ sagði einn notandi, samkvæmt frétt Guardian.