Sérfræðingar bandaríska bankans Goldman Sachs telja að verð á olíu geti fallið meira en það hefur þegar gert, og gerir spá bankans ráð fyrir að hráolía (crude oil) fari niður í 46 Bandaríkjadali á tunnuna að meðaltali á næsta ári, en það er nú 48 Bandaríkjadalir. Fyrri spá hafði gert ráð fyrir 57 dölum að meðaltali.
Í spá bankans, sem vefmiðilinn Quartz vitnar til, kemur fram að offramboð af olíu sé töluvert meira en sérfræðingar bankans höfðu reiknað með í fyrri spá, og ef ekki komi til þess að olíuframleiðsluríkin, OPEC, dragi úr framleiðslu, þá geti það leitt enn meiri verðfalls, og jafnvel farið niður í 20 Bandaríkjadali á tunnuna.
Ljóst er að slík lækkun gæti haft mikil efnahagsleg áhrif til hins verra fyrir mörg ríki sem reiða sig á olíuframleiðslu og þjónustu við olíuiðnað. Þar á meðal má nefna Noreg, Rússland, Brasilíu og Venesúela, en þessi ríki hafa glímt við töluverðar efnahagslegar þrengingar, og sumum tilfellum nær algjört hrun, vegna verðfalls á olíu á síðustu mánuðum.
Önnur ríki, sem ekki framleiða olíu, eins og til dæmis Ísland, geta notið góðs af því að olía lækki þar sem kostnaður við samgöngur á sjó, landi og lofti lækkar og verðlag á ýmsum innfluttum varningi sömuleiðis, með tilheyrandi áhrifum á vísitölu neysluverðs til lækkuna.