Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands komst undir lok maí að þeirri niðurstöðu að Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs hafi gerst brotlegur við siðareglur Blaðamannafélags Íslands, og að brot hans, í tveimur kærumálum, teldust alvarleg.
Athafnamaðurinn Róbert Wessman er kærandi í báðum málunum sem lögð voru fyrir siðanefndina, en umkvartanirnar varða skrif Reynis um Róbert, sem Róbert staðhæfir að séu röng og kvartar yfir að fáist ekki leiðrétt.
Ástæðan fyrir því að Reynir telst hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins er sú að hann hefur þegið greiðslur frá Halldóri Kristmannssyni, að eigin sögn vegna fyrirhugaðrar bókaútgáfu um Róbert Wessman.
Metur siðanefndin það sem svo að hann hafi með móttöku fjármuna frá Halldóri „orðið vanhæfur til að fjalla um málefni kæranda í fréttamiðli með þeim hætti sem hin kærða umfjöllun er fram sett“ enda hafi honum borið samkvæmt 5. grein siðareglna Blaðamannafélagsins að forðast hagsmunaárekstra.
„Með hinum kærðu skrifum sínum hefur kærði, Reynir Traustason, því ekki farið að þeirri grundvallarreglu að blaðamanni beri fyrst og síðast að gæta að hagsmunum lesenda. Siðanefnd telur að hann hafi fært hagsmuni Halldórs Kristmannssonar framar og hafi því brotið gegn 5. gr. siðareglna,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Halldór er fyrrverandi samstarfsmaður Róberts, en hefur staðið í miklum illdeilum við hann á opinberum vettvangi undanfarin misseri, sem meðal annars var fjallað um í fréttaskýringum í Kjarnanum síðasta vor.
Í kæru Róberts til siðanefndar var því haldið fram að Halldór hafi greitt Mannlífi 30 milljónir króna „fyrir herferð gegn sér“ á síðasta ári en í úrskurði siðanefndar segir að Reynir hafi komið því á framfæri við nefndina að fjárhæðin sem Halldór hafi greitt Reyni vegna útgáfu bókar sem hann er að skrifa um Róbert „sé langt frá því sem kærandi fullyrðir“.
Trausti Hafsteinsson, fréttastjóri Mannlífs, var einnig kærður í öðru málinu þar sem hann skrifaði eina af fimm umfjöllunum sem Róbert tiltók í annarri af tveimur kærum sínum. Mat siðanefndarinnar var að hann teldist ekki hafa brotið siðareglur þar sem af gögnum málsins fengist ekki séð að hann hefði þegið greiðslur frá Halldóri.