Fara þarf gaumgæfilega yfir hvaða áhrif endurgreiðsla kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku hefur haft á íslenska bókaútgáfu að mati Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambands Íslands, en sú vinna stendur nú yfir hjá sambandinu. Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda segir aftur aftur á móti að endurgreiðslurnar sem voru lögfestar árið 2019 hafi ótvírætt haft jákvæð áhrif og hreinlega bjargað íslenskum bókamarkaði.
Kjarninn fjallaði á dögunum um endurgreiðslurnar sem hófust árið 2019 eftir að lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku voru samþykkt á Alþingi. Markmið laganna er að efla íslenska bókaútgáfu með því að veita bókaútgefendum stuðningin í formi endurgreiðslu á allt að fjórðungi kostnaðar við útgáfu. Lögin verða endurskoðuð fyrir lok lok næsta árs en þar að auki skal ráðherra láta gera úttekt á árangri stuðningsins fyrir lok þessa árs.
Þessar endurgreiðslur námu á fjórða hundrað milljóna króna bæði í fyrra og í hittifyrra en upphæðin var öllu lægri árið 2019, enda hafa útgefendur níu mánuði til þess að sækja um endurgreiðslu eftir að bók kemur út. Þar sem upphæð endurgreiðslunnar fer eftir kostnaði við útgáfu fá þau verk hæstu endurgreiðsluna sem bera mestan kostnað. Sundurliðað eftir útgjaldaliðum fá útgefendur mest endurgreitt fyrir prentkostnað. Því er ljóst að þær bækur sem eru prentaðar í stórum upplögum fá hæstar endurgreiðslur, enda raða þekktir metsölutitlar sér í mörg af efstu sætum þeirra bóka sem fengið hafa hæstu endurgreiðslurnar á síðustu árum.
Vill að höfundar fái meira í sinn hlut
Því hljóta einhverjir að spyrja sig: „Á ríkið að borga undir útgáfu metsölubóka?“ Þetta er ein af þeim spurningum sem Ragnheiður Tryggvadóttir segir Rithöfundasambandið vera með til skoðunar.
„Við erum í þeirri vinnu að fara gaumgæfilega yfir þetta og við erum með allskonar svona spurningar eðlilega. Við erum ekki komin svo langt í ferlinu að geta sagt til um hvort þetta sé endilega slæmt, að bók sem að hvort eð er selst svona mikið fái þetta háa endurgreiðslu því við þurfum náttúrlega líka að skoða hvort það komi einhverju öðru til góðs. En vissulega, það er ekkert leyndarmál að menn vilja reikna það dæmi mjög vel.“ segir Ragnheiður.
Hún bendir í kjölfarið á hversu gagnsætt kerfið er. Útgefendur gefa upp sinn kostnað og fá svo allt að fjórðung hans endurgreiddan. Hún segir engu að síður nauðsynlegt að skoða það gaumgæfilega hvort endurgreiðslurnar hafi skilað markmiði sínu sem er að auka og bæta bókaútgáfu.
Spurð að því hvort endurgreiðslurnar hafi skilað sér til höfunda segir Ragnheiður þær hafa gert það að litlu leyti. „Höfundur fær 45 prósent hlut af greiðslu til útgefandans frá íslenska ríkinu vegna endurgreiddra höfundarlauna fyrir viðkomandi verk. Þannig að bókaútgefandinn fær 25 prósent af áætluðum höfundarlaunum til baka frá ríkinu og af þessum peningum, af þessum 25 prósentum borgar hann höfundinum innan við helming – 45 prósent.“
Spurð að því hvort ekki megi kalla þetta kjarabót fyrir höfunda segir Ragnheiður: „Já, en mjög langt frá því að vera það sem við vildum. Okkur finnst í rauninni að þetta eigi bara að skila sér til höfunda.“
„Fjölbreytt bókaútgáfa gagnast lesendum.“
Fram kom í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu um stuðninginn þegar það var lagt fram að endurgreiðslurnar ættu að geta leitt af sér lækkun á bókaverði. Ragnheiður segir það ekki hafa tekist. Lækkun bókaverðs myndi heldur ekki endilega gagnast höfundum. „Það myndi út af fyrir sig ekki koma höfundum neitt sérstaklega vel því höfundarlaun eru greidd sem prósenta af heildsöluverði bókar,“ segir Ragnheiður og bætir því við að höfundarnir sjálfir hafi ekki kallað sérstaklega eftir því að bókaverð myndi lækka. „Nema ef hægt væri að setja dæmið þannig upp að það myndi auka söluna svo mikið, því það er aukin sala sem skilar sér í vasa höfundanna.“
Spurð að því hvort endurgreiðslurnar hafi þar af leiðandi ekki gagnast lesendum að neinu marki segir Ragnheiður ekki geta gefið já eða nei svar. „Ef þú hugsar þetta þannig að þetta eigi að gagnast bókaútgáfu í heild sinni og þar með auðvelda útgáfu á bókum sem kannski yrðu ekki gefnar út, þá auðvitað gagnast þetta lesendum því fjölbreytt bókaútgáfa gagnast lesendum.“
Til þess að meta árangurinn þurfi því að fara í saumana á því hvernig endurgreiðslurnar hafa skilað sér og segir Ragnheiður þá vinnu standa yfir.
„Það hefur tekist að bjarga þessari grein“
Heiðar Ingi Sigurðsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda segir það aftur á móti skýrt að stuðningurinn hafi bjargað íslenskri bókaútgáfu. Hann segir að þegar lögin voru sett hafi staðið yfir mikið samdráttarskeið í sölu bóka hér á landi. „Það hefur tekist að bjarga þessari grein, það hefur verið vöxtur síðan að lögin voru sett. Veltan var 2,4 milljarðar árið 2018, samkvæmt Hagstofunni, og í fyrra 4,1 milljarður, sem þýðir að já, það hefur tekist svo um munar.“
Hann segir að í kjölfar þess að stuðningi hafi verið komið á hafi fjölbreytni í bókaútgáfu einnig aukist, bæði hvað varðar útgáfuform, til dæmis hafi fleiri rafbækur og hljóðbækur komið út á síðustu árum, en einnig nefnir hann sérstaklega barnabækurnar. „Útgáfan er allavega miklu blómlegri og fjölbreytnin meiri heldur en áður, eðlilega.“
Heiðar bendir á að hlutfallið af stuðningi nemi um níu prósentum af veltu í greininni, sumum kunni að finnst það lágt hlutfall en öðrum að ríkið eigi alls ekki að standa í slíkum styrktargreiðslum. „Auðvitað er alltaf hægt að spyrja sig hvort ríkið eigi að styðja menningu og listir og hvernig eigi að gera það og hvernig því sé best komið fyrir. Ég held að niðurstaðan sé sú, almennt séð, að þessi aðferð sem beitt er á kvikmyndir, tónlist og bókaútgáfu sé góð.“
Telur bókaverð ekki hafa haldið í við verðbólgu
Spurður út í það hvort nauðsynlegt sé að styðja við bakið á útgáfu metsölubóka segir Heiðar erfitt að svara því játandi eða neitandi. „Þá getur maður spurt sig, hvaða aðferð væri betur til þess fallin að ná sama árangri? Hugsunin í þessu öllu er að þetta er almenn aðgerð, að þetta sé almennur stuðningur,“ segir Heiðar og bendir á að núverandi fyrirkomulag sé gagnsætt sem skiptir máli.
„Ramminn er alveg skýr, það er ekki verið að flokka bækur eftir efnistökum, innihaldi sölumöguleikum og svo framvegis,“ segir Heiðar. „Ef þú ætlar að flokka bækur þannig þá ertu búinn að skemma hagfræðilegu rökin. Hagfræðilegu rökin eru þau að svo framarlega sem þú gefur út bók og hún uppfyllir þau skilyrði sem eru sett, sem eru almenn og gegnsæ, þá færðu endurgreiðslu.“
Líkt og áður segir var í greinargerð með frumvarpinu talað um að verð bóka ætti að geta lækkað eftir innleiðingu á endurgreiðslunum. Heiðar segist ekki hafa skoðað þetta atriði ofan í kjölinn en telur að þetta markmið hafi náðst. „Ef þú skoðar verð bóka eða þróun á verði bóka í samanburði við almennar verðhækkanir, ef þú skoðar verðbólgu og tekur verðbólguþróun inn í þetta, þá tel ég að verð bóka hafi hlutfallslega lækkað undanfarin ár,“ segir hann og bætir við að þarna hafi endurgreiðslan hjálpað til við að halda aftur af verðhækkunum.
Hvað höfundana varðar, þá telur Heiðar að þessi aðgerð hafi einnig komið þeim til góða. „Hagsmunir höfunda eru beintengdir við hagsmuni útgefenda. Ef að útgefnum bókum fjölgar eða ef veltan eykst eða bransinn stækkar að umfangi þá eykst ábati höfunda í hlutfalli við það, það gefur augaleið.“