Aðhaldsaðgerðir sem birtast í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár eru þær minnstu í „áraraðir“ og nema einungis 0,2 prósent af heildarveltu fjárlaga. Þessi staða setur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands minni skorður í taumhaldi peningastefnunnar, að því er segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Deildin spáir því að stýrivextir haldist 5,5, eða óbreyttir, næst þegar vaxtaákvörðunardagur er, en það er í næstu viku. Verðbólga mælist nú 1,9 prósent, sem er umtalvert minna en spá Seðlabanka Íslands gerði ráð fyrir.
„Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 verið lagt fram og er okkar mat að í því felist umtalsvert minna aðhald en sést hefur undanfarin ár. Þá eru ummæli seðlabankastjóra frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi okkur ofarlega í huga en þar var komið inn á samspil peningastefnunnar og ríkisfjármála og þá staðreynd að því meira sem aðhald í ríkisfjármálum er, því lausara getur taumhald peningastefnunnar verið,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að frumútgjöld á föstu verðlagi að frádregnum óreglulegum útgjaldaliðum, aukist á næsta ári eftir að hafa breyst lítið frá árinu 2012. Frumútgjöldin munu áfram lækka sem hlutfall af landsframleiðslu en frumútgjöldin á næsta ári munu nema 27,2 prósent sem er hærra en árið 2007 en þá var hlutfallið 26,1 prósent, að því er segir í umfjölluninni.