Góðgerðarstofnun Gretu Thunberg hefur gefið samfélögum Sama í norðurhluta Svíþjóðar 2 milljónir sænskra króna, um 27 milljónir íslenskra króna, til að standa straum af lögfræðikostnaði í málaferlum gegn bresku námufyrirtæki. Járngrýtisnáman sem Beowulf Mining áformar er á svæði sem er mikilvægt fyrir hreindýrabúskap Samanna.
Námufyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar sínar í London, fékk leyfi sænskra yfirvalda í mars til að grafa eftir járngrýti á svæðinu. Einhverjir héldu að þar með væru úr sögunni deilur um námuvinnsluna sem staðið hafa í um áratug en annað átti sannarlega eftir að koma í ljós. Samarnir ætla ekki að gefast upp. Þeir hafa síðustu ár notið stuðnings víða að, m.a. frá Heimsminjastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og leiðtoga sænsku kirkjunnar. Náman er áformuð í Jokkmokk í norðurhluta Svíþjóðar. Í byrjun árs 2020 höfnuðu sænsk yfirvöld leyfisumsókn Beowulf um námu á þessum slóðum. Tveimur árum síðar gáfu stjórnvöld hins vegar grænt ljós að undirlagi viðskipta- og iðnaðarráðherrans Karl-Petter Thorwaldsson sem segir að fyrirtækinu hafi verið sett ströng skilyrði til að lágmarka áhrif hinnar opnu námu á hreindýrabúskap Samanna.
Leiðtogar Sama blása á þessi rök og segja að náman, sem verður opin yfirborðsnáma, muni eftir sem áður hafa neikvæð áhrif á beitarlönd hreindýra og far leiðir þeirra.
„Núna erum við að reyna að áfrýja ákvörðun sænskra stjórnvalda um að leyfa námuna,“ segir Jon-Mikko Länta, formaður byggðaráðs Jåhkågaska-samfélagsins, sem yrði fyrir mestum áhrifum af námunni. Í viðtali við Guardian segir að framlag Gretu Thunberg-stofnunarinnar geri frekari baráttu gegn námunni mögulega. „Lögfræðingar okkar telja að þessi ákvörðun stjórnvalda sé ekki í samræmi við alþjóða samninga um réttindi frumbyggja.“
Hin áformaða náma yrði í um 45 kílómetra fjarlægð frá bænum Jokkmokk. Beowulf hefur sóst eftir leyfum fyrir henni síðan árið 2013.
Áformunum var þá þegar mótmælt og ekki minnkaði andstaðan ári síðar er myndbandsupptaka af Clive Sinclair-Poulton, þáverandi stjórnarformanni fyrirtækisins, var birt opinberlega. Upptakan var af fundi stjórnar Beowulf með væntanlegum fjárfestum. „Ein algengasta spurningin sem ég fæ er: Hvað finnst íbúum á svæðinu um þetta verkefni? Og ég hef sýnt þeim þessa mynd [af framkvæmdasvæðinu] og sagt: Hvaða íbúum?“
Fyrirtækið heldur því fram að náman yrði utan Lapplands og þar með svæðis sem frumbyggjalögin sem Samarnir vísa til ná yfir.
Þing Sama skrifaði ríkisstjórn Svíþjóðar bréf í febrúar og benti á að náman myndi skerða beitarlönd hreindýra sem eru lifibrauð margra íbúa á þessum slóðum. Á svæði sem náttúran er að taka breytingum vegna hlýnunar loftslags og sem á undir högg að sækja, m.a. vegna skógarhöggs og áformaðra vatnsaflsvirkjana.
Lappland er á heimsminjaskrá UNESCO vegna sögu, menningar og náttúru. Mörk verndarsvæðisins eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá hinni fyrirhuguðu yfirborðsnámu.
Þau skilyrði sem sett voru fyrir framkvæmdaleyfum eru m.a. þau að Beowulf vinni að skipulags- og umhverfismálum í nánu samráði við heimamenn. Fyrsti fundur námufyrirtækisins og fulltrúa Sama verður haldin í byrjun næsta árs.
Greta Thunberg hefur látið sig baráttu Samanna varða og heimsótti Jokkmokk í fyrra. „Í tólf ár hefur samfélagið reynd að verja beitilönd sín fyrir þessari járngrýtisnámu,“ segir hún. „Með þeirri baráttu hafa þeir staðið vörð um það sem færir okkur öllum öryggi: Líffræðilega fjölbreytta skóga sem binda kolefni sem og hreint vatn og hreint loft. Þetta er alls ekki einstakt baráttumál því við sjáum þetta vera að gerast víða um heim.“
Thunberg segir frumbyggja vera í framvarðarsveit þeirra sem vilja verja jörðina og vistkerfi hennar fyrir eyðileggingu. „Svíþjóð er áfram um að skilgreina sjálfa sig sem land framfara sem berst fyrir mannréttindum. En sænska ríkið hefur lagt undir sig land Sama í aldir og leitar þar stöðugt að nýjum náttúruauðlindum sem það getur nýtt sér, oft án þess að taka tillit til sjónarmiða Sama.“
Hreindýrin eru ekki þau einu sem yrðu fyrir áhrifum hafa sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindum og umhverfismálum bent á. Náman myndi menga andrúmsloft, jarðveg og grunnvatn og við vinnsluna myndi falla til eitraður úrgangur. Þeir bentu auk þess á að verulega skorti enn á mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Námuvinnsla er umfangsmikil atvinnugrein nú þegar í Svíþjóð. Við hana starfa um 45 þúsund manns og hlutdeild hennar í útflutningstekjum landsins er um 10 prósent.