Grísk stjórnvöld reyna nú allt til að verða sér út um fjármagn frá Seðlabanka Evrópu, en bankinn hefur að undanförnu þrengt skilyrði fyrir fjármögnun handa grískum fjármálastofnunum og gríska ríkinu.
Seðlabanki Evrópu hefur nú krafist meiri trygginga en áður, og eiga grískar fjármálastofanir í erfiðleikum með að mæta þeim kröfum, að því er fram kemur á vef New York Times.
Seðlabankinn í Grikklandi hefur að undanförnu hækkað kröfur sínar um 50 prósent, þegar kemur að skammtíma lánum til grískra banka. Ástæðan er sú, að ekkert bendir til þess að grísk stjórnvöld muni geta fjármagnað skuldir sínar sem eru á gjalddaga í lok mánaðarins, og í sumar.
Afborganir lánanna, sem Grikkir eiga að standa skil á sumarmánuðum, nema 2,5 milljörðum evra, sem jafngildir 364 milljörðum króna.
Samningaviðræður um endurfjámögnun skulda Grikkja standa nú yfir, og er ekki ljóst hvenær niðurstaða liggur fyrir.