Grísk stjórnvöld hafa krafið Þjóðverja um tæplega 278 milljarða evra stríðsskaðabætur vegna hernáms nasista í landinu í Seinni heimstyrjöldinni. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC, en þetta er í fyrsta skipti sem opinber tala er sett á stríðsskaðabæturnar en töluverð umræða hefur átt sér stað að undanförnu, einkum hjá stjórnvöldum í Grikklandi, um að gera tilkall til þeirra.
Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hefur þegar kynnt kröfurnar fyrir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Krafan er meðal annars byggð á láni sem Nasistar neyddu Grikki til þess að taka, upp samtals 10,3 milljarða evra, uppfært. En samanlagður kostnaður vegna hernáms Nasista, sem hófst 1941 en lauk með lokum styrjaldarinnar, er áætlaður af grískum stjórnvöldum 278,7 milljarðar evra. Þetta er upphæð sem nemur um 10 prósent af árlegri landsframleiðslu Þýskalands.
Grísk stjórnvöld hafa staðið í ströngu undanfarin misseri við að semja um skuldir sínar, sem nema samtals 240 milljörðum evra. Á fimmtudaginn næsta á ríkissjóður Grikkja að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 448 milljónir evra, en enn þyngri gjalddagar eru síðan framundan á sumarmánuðum. Ekki liggur fyrir hvort það takist að endursemja um skuldirnar, en ljóst er að greiðslufall gæti haft alvarleg áhrif fyrir efnahagslíf Grikklands.