Grísk stjórnvöld óskuðu í dag formlega eftir fjárhagsaðstoð í gegnum sérstakan neyðarlánasjóð evruríkjanna, hið svokallaða Evrópska stöðugleikakerfi. Endurnýjuð, formleg ósk Grikkja var mikilvæg fyrir næstu skref í lausn að miklum efnahagsvanda ríkisins en leiðtogar annarra evruríkja hafa talað opinskátt um að framtíð Grikklands í evrusamstarfinu hangi á bláþræði og ráðist mögulega á næstu dögum. Vonir stóðu til að Grikkir myndu leggja fram ný drög að samkomulagi milli þeirra og kröfuhafa í gær. Ekkert varð að því en búist er við að nýtt tilboð verði lagt fram á föstudag og rætt á leiðtogafundi evruríkjanna um helgina. Hætt var við fund fjármálaráðherra evruríkjanna sem átti að fara fram í dag.
Seðlabanki Evrópu hefur varað grísk stjórnvöld við því að náist ekki samkomulag næstkomandi sunnudag þá sé bankinn nauðbeygður til þess að hætta fjárhagssaðstoð til grískra banka. Seðlabanki Evrópu hefur á síðustu mánuðum lagt um 89 milljarða evra í gríska fjármálakerfið til þess að koma í veg fyrir bankahrun. Aðstoð seðlabankans til handa Grikkjum hefur verið af skornum skammti undanfarnar vikur, á meðan ekki hefur náðst samkomulag við kröfuhafa um eftirgjöf og endurgreiðslu skulda gríska ríkisins.
Orðaskipti á Evrópuþinginu
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, talaði á Evrópuþinginu í Strasbourg í morgun, auk Donald Tusk, forseta ESB og Jean-Claude Junker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Viðbrögð við komu Tsipras í Evrópuþingið voru blendin en hann sagði meðal annars trúa því að ríkisstjórn hans gæti mætt skuldbindingum sínum, bæði Grikklandi og evrusvæðinu í hag. Vilji Tsipras og ríkisstjórnar hans er að halda áfram evrusamstarfinu. Tusk talaði sem fyrr fyrir samkomulagi milli deiluaðila og sagði meðal annars að án þess stæði Grikkland frammi fyrir bankakrísu og mögulegum bankagjaldþrotum. Á því myndu allir tapa.
Samkvæmt umfjöllun The Guardian urðu nokkuð hörð orðaskipti milli þingmanna Evrópuþingsins í kjölfarið, meðal annars vegna hryðjuverkaummæla fyrrum fjármálaráðherra Grikklands. Þá hvatti hinn breski Nigel Farage, leiðtogi UKIP hreyfingarinnar, Tsipras til þess að yfirgefa evrusamstarfið.