Grísk stjórnvöld fara í dag yfir tilboð frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, einum lánveitanda Grikklands, þar sem reynt er til þrautar að koma í veg fyrir yfirvofandi greiðslufall gríska ríkisins. Hluti láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Grikklands fellur á gjalddaga síðar í dag en með samkomulagi á síðustu stundu yrði Grikkjum kleift að greiða fjárhæðina. Upphæðin sem er á gjalddaga í dag nemur 1,6 milljörðum evra, eða jafnvirði um 235 milljarða íslenskra króna. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum, meðal annars Guardian sem fylgist grannt með stöðu mála, þykir mögulegt að Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ferðist til Brussel í kvöld og fundi um mögulega lausn á síðustu stundu.
Eins og kunnugt er hafnaði Alexis Tsipras fyrra tilboði kröfuhafa Grikklands og sendi ákvörðunina um samþykkt samninga í þjóðaratkvæðisgreiðslu þann 5. júlí næstkomandi. Leiðtogar stærstu evruríkjanna gerði grískum stjórnvöldum það ljóst í gær að atkvæðagreiðslan snérist í raun um áframhaldandi aðild Grikkja að evrusamstarfinu. Grískir bankar opnuðu ekki í gær og eru enn lokaðir almenningi. Einungis er hægt að taka út 60 evrur á dag úr hraðbönkum og hafa myndast langar biðraðir við hraðbanka.
Hópfjármagna neyðarlán til Grikklands
Á meðan ráðamenn í Evrópu reyna að leysa úr flókinni stöðu sem gæti haft í för með sér ófyrirséðar afleiðingar, þá hefur Breti einn hafið hópfjármögnun á neyðarláni til Grikklands á hópfjármögnunarsíðunni Indiegogo. Hann stefnir að því að safna 1,6 milljörðum evra. Huffington Post fjallar meðal annars um söfnunina undir fyrirsögninni „Gríski neyðarsjóðurinn á Indiegogo er jafn niðurdrepandi og hann hljómar“. Fyrir þriggja evra framlag fæst póstkort frá forsætisráðherra Grikklands, prentuð í Grikklandi, grísku efnahagskerfi til góðs. Fyrir sex evrur fæst grískt salat með feta-osti og olívum, fyrir tíu evrur fæst lítil flaska af drykknum Ouzu og fyrir 25 evru framlag fæst flaska af grísku víni.
Á hádegi í dag, þriðjudag, höfðu safnast um 103 þúsund evrur sem er einungis brot af upphæðinni sem þarf. Miðað við þann skamma tíma sem er til stefna þykir ólíklegt að lánagreiðsla gríska ríkisins verði hópfjármögnuð af einstaklingum.